Espergærde. Sjö seld eintök

Í gær las ég ýmislegt í kringum sögu argentínsku skáldkonunnar Samönthu Schweblin sem hefur fengið titilinn Bjargfæri í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar (án efa stórfín þýðing). Ég er orðinn ansi spenntur að lesa þessa bók sem kom út á dögunum og mig langar að lesa íslensku þýðinguna frekar en enska eða danska þýðingu, ég er svo sannfærður um gæði þeirrar íslensku. En þegar ég ætlaði að kaupa bókina uppgötvaði ég að bókin fæst hvorki á íslensku sem e-bók né hljóðbók. Eins og ég hef sagt áður er ómögulegt að flytja inn prentaðar bækur hingað til Danmerkur frá Íslandi. Það er svo dýrt og svo mikið vesen. (Ísland er augljóslega ekki hluti af Evrópusambandinu.)

Mig langaði sem sagt að kaupa mér e-bókina af Bjargfæri (Distancia de rescate) til að lesa í gærkvöldi en átti ekki möguleika á að fá íslensku þýðinguna í iPadinn minn. Ég hef orðað vanskilning minn við einn af mínum góðu íslensku forleggjaravinum á því hvers vegna allar bækur kæmu ekki í e-útgáfu. Ég fékk svarið að e-bækur seldust bara ekki á íslensku. Sölutölurnar hljóma hlægilega: 7 eintök er heildarsalan á mörgum minna vinsælum titlum!

Ég verð því að bíða þar til ég kem næst til Íslands til að kaupa bókina, ekki nenni ég að ónáða fólk með að kaupa bókina fyrir mig og senda mér.

EInn ágætur fræðimaður, Her­mund­ur Sig­munds­son sálfræðingur, hefur vakið athygli mína fyrir góðar greinar sem hann skrifar í dagblöð á Íslandi. Mér finnst eitthvað gott við þau viðfangsefni sem hann velur að skrifa um og þá afstöðu sem hann tekur. Hann á skilið klapp á bakið þessi ágæti maður.

ps. Ég hélt, eftir að hafa fylgst með íslensku pressunni, að gjörvallur heimurinn svelgdi í sig eins og þyrst blóm orð og athafnir hljómsveitarmeðlimanna í Hatari. Ég er því örlítið hissa á að ég hef ekki séð minnst á þessa tónlistarmenn í neinu af þeim erlendu dagblöðum sem ég les reglulega.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.