Það er dálítið undarleg tilfinning að standa fyrir utan Eurovision-maníuna á Íslandi og horfa á hana úr fjarlægð. Ég næ auðvitað ekki að hrífast með og verð bara að segja beint frá hjartanu, héðan úr litlu herbergi á Norður-Sjálandi, að ég skil ekki hugaræsinginn sem keppnin, fjölmiðlarnir og íslensku þátttakendunum hefur tekist að ýfa upp hjá hinni íslensku þjóð. Sennilega þarf maður að búa í miðsvæðis í Reykjavík til að skilja þetta. Þegar ég opnaði íslenska fjölmiðla í morgun á internetinu var eins og eitthvað stórkostlegt hafði gerst. Ég las að hinir ungu, íslensku listamenn veifuðu Palestínskum fána og að öryggisverðir hefðu fjarlægt sama fána. Hmmm. Já, ég veit svo sem ekki hvort þessi athöfn hafi hjálpað þjáðu fólki í Palestínu (ég vona sannarlega að fólkið hafi það betra í dag en í gær) en gjörningurinn hefur að minnsta kosti skemmtanagildi á Íslandi. Snýst þessi leikur um að fá smá fjör, fá vinda til að blása í þeirri menningarlognmollu sem hrjáir þjóðina? Eða er Eurovison dæmi um hið sprúðlandi, íslenska menningarlíf. Dæmi um hina miklu pólitísku vitund þjóðarinnar? Dæmi um að hjarta þjóðarinnar slær með kúguðum (ja, hvar ætli kúgun viðgangist annars staðar en í Palestínu?) Allt þetta er dyggilega stutt af RÚV og mbl.is? Ætli þjóðin gleymi Hatara, Palestínu og Eurovision í næstu viku? Maður á erfitt með að trúa því, en maður veit aldrei.
Ég sé að það er kvartað undan því að kapítalisminn hafi tekið Hatara undir sinn verndarvæng, gert þá að sínum. Það er sannarlega rétt að Eurovison er hluti af hinu kapitalíska systemi, en það gerðist ekki í ár. Eurovison og Hatar hafa svo sem alltaf verið hluti af hinum kapitalíska veruleika og ekkert hefur breyst með þátttöku þessara búningaklæddu listamanna. Án þess að vita það, er ég hræddur um að þeir séu sjálfir virkir þátttakendur í hinni kapitalísku vél.
Hér í Danmörku eru alþingskosningar á næsta leiti. Hér í landi hefur því miður enginn gert sér grein fyrir mikilvægi Eurovison, enginn hefur minnst orði á söngvakeppnina en þess í stað notað fleiri orð um: útlendingapólitík, eftirlaun og loftslagsmál. Þetta eru þau þrjú meginatriði sem stjórnmál í Danmörku snúast um.
En í mínum litla huga snýst lífið um menntun og menningu; það er auðvitað hlægilegt. Í mínum litla huga er menntun og menning leiðin til hins fagra og góða lífs. Minn litli stjórnmálaflokkur hefur bara þetta tvennt á stefnuskránni. Ef ég mundi bjóða mig fram mundi ég fá eitt atkvæði. Ég mundi fá mitt atkvæði. Það er nóg fyrir mig.
ps. Af hverju að einskorða svið pólitískrar baráttu við Eurovison? Er ekki góð hugmynd að fá Aron fótboltalandsliðsmann að útbreiða eitthvað „rétt“ baráttumál í hálfleik eða undir víkingaklappinu eftir landsleiki í fótbolta? Ég veit ekki hvaða kúgun væri gott að berjast á móti, væri nógu rétt? Veifa kúrdíska fánanum þegar spilað er á móti Tyrkjum? Eða fána Katalóníu ef við spilum á móti Spáni? Eða grænlenska fánanum þegar Danir eru mótherjar okkar. Þetta eru að minnsta kosti nógu „rétt“ baráttumál þótt fæstir hafi nægilega sögulega þekkingu til að setja sig inn í þær staðreyndir sem knýja deilurnar. „Húmanistunum“ fjölgar en eru fangaðir í speglasal þar sem þeir geta einungis séð sjálfan sig. Er eigið identitet í rauninni grunnaflið í baráttunni?