Espergærde. Fjöldahreyfing

Það er heitt á skrifstofunni minni í dag, ekkert loft, ekki hreyfing á einni einustu orkueind. En ég kný mig samt áfram með mínum óþrjótandi innri styrk, yo! Stundum byrja ég dagana á því að kíkja á vefmyndavél frá Tjörninni í Reykjavík. Aðeins að skoða heimaslóðir. Það gerði ég í morgun. Klukkan var sex við Reykjavíkurtjörn, ekki mikil hreyfing á fólki og einungis endurnar vaknaðar. Á meðan ég virti fyrir mér fuglalífið hlustaði ég á Lestina í tölvuhátalaranum – að vísu á þátt sem fluttur var í RÚV síðustu viku – og auðvitað var fjallað um Eurovison þar eins og í öðrum íslenskum fjölmiðlum. Ég varð pínulítið þreyttur (afsakið) en ég gat ekki annað en glott með sjálfum mér þegar pistlahöfundur á vegum Önnu Gyðu og Eiríks lýsti yfir stuðningi við hljómsveitina sem kemur fram fyrir Íslands hönd, eins og það heitir.

Það mætti halda að ég væri með óslökkvandi heimþrá. Nei, ég hef ekki neina löngun til að flytja til Íslands, eins gott land og það er. Mér finnst hærra til himins hér á meginlandi Evrópu. Næstu daga verðum við drengir einir heima. Sus er á leið til Parísar þar sem hún ætlar að dvelja með vinkonu sinni í eina viku. Vel getur verið að ég flytji skrifstofuna heim þá vikuna. Númi er í prófum og maður þarf að strjúka og klappa ungum manni sem stendur í slíkum raunum.

Í gær bárust mér tvær stuðningsyfirlýsingar úr óvæntri átt við stjórnmálaflokkinn sem ég hótaði að setja á laggirnar í síðustu dagbókarskrifum. Bráðum boða ég til stofnfundar. Allt stefnir í að þetta verði mikil fjöldahreyfing. Flokkur sigurvegarana. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.