Allt í einu er ég farinn að sjá fyrir endann á þýðingarverkefni sem hefur fylgt mér síðustu mánuði. Ég prentaði út restina af orginal-bókinni af pdf skjali sem ég hafði fengið og bókin er 80 síðum styttri en ég hafði haldið og skyndilega er ég að ná í endamarkið. Bókin er löng og mér finnst ég hafa þýtt og þýtt og lítið miðað áfram. Letrið er smátt og línubilið lítið og er textamagnið ægilegt á hverri síðu og því kostar það átök og tíma að komast í gegnum eina síðu (og síðurnar eru margar, fleiri en 500).
Annars komu mér verulega á óvart ummæli (ég las viðtal í New York Times í morgun) eins þeirra þýðenda sem tilnefnd er til hinna alþjóðlegu Bookerverðlauna, (en þeim verður úthlutað í dag) þegar hún segir að hingað til hafi verið litið á þýðingarstarfið sem einskonar handavinnu enda séu flestir þýðendur konur. Ég varð eiginlega mjög hissa. Viðbrögð mín gátu verið á tvo vegu: 1) hvar hef ég verið, skil ég ekki neitt? eða 2) um hvað er þessi ágæti þýðandi að tala? Ég valdi viðbrögð merkt: 2). Sjálfur hef ég (ég er karlmaður) setið yfir þýðingum frá árinu 1880 eða þar um bil og ég hef aldrei fyrr heyrt þá skoðun haldið fram að þetta starf sé handavinna. (Nei, það er ekki rétt; ég hef bara heyrt starfandi þýðendur halda því fram að aðrir haldi því fram að þýðing sé lásí handavinna. En þetta tel ég vera óþarfa minnimáttarkennd sem ég vel að taka ekki alvarlega.) Satt að segja held ég líka að fullyrðingin um að þetta sé kvennastarf sé líka röng. Í mínum heimi (og ég hef verið í útgáfuheiminum frá því fyrir árið 1880) þekki ég álíka marga virka þýðendur af báðum kynjum, bæði í Danmörku og á Íslandi. Ég tel enga ástæðu fyrir fólk að hengja alltaf vonbrigði sín – í þessu tilfelli að maður telji þýðingarstarfið ekki njóta virðingar – á að maður tilheyri ákveðnu kyni. Margvíslegar ástæður eru að baki áföllum og vonbrigðum, þar er kyn ekki alltaf sterkasti orsakavaldurinn. Þessu held ég fram, ég tel mig þó ekki hafa patent á hinni „réttu“ skoðun.
En Alþjóðlegu Booker-verðlaunin (þýdd verk á ensku) verða veitt í dag og eru sex bækur tilnefndar. Ég hef bara lesið eina af þessum sex; The Shape of the Ruins eftir kólumbíska höfundinn Juan Gabriel Vásquez. Mér fannst það frábær bók og ég vona að hún vinni.
Undir dagbókarskrifum dagsins hljómar ný hljómplata Marteins Sindra en ég byrjaði að hlusta á plötuna hans í gær og líst bara ansi vel á. Mér finnst svo mikið af ungu, hæfileikaríku fólk á Íslandi eða „duglegu“ ungu fólki eins og maður segir á dönsku.