Espergræde. Þinn tími er mikilvægur. Gilbert úrsmiður …

Í gær hlustaði ég nær allan daginn á útvarp við vinnuna. Ég hlustaði ekki bara á útvarp, heldur hlustaði ég íslenskt útvarp. Rás 1. Ég er að lesa yfir þýðingu mína og mér fannst betra að láta íslensku hljóma í kringum mig á meðan. Sus er í Frakklandi, ég er því einn heima allan daginn og íslenskur útvarpslestur truflar engan. En þegar Númi kom heim úr skólanum lagði hann undrandi við hlustir þegar útvarpstilkynningar voru lesnar; tilkynningar fyrir fréttir:
Þinn tími er mikilvægur. Gilbert úrsmiður …
Langbesta verðið. Fáðu tilboð. Hringdu, punktur, is ….
„Hvað er þetta?“ spurði Númi.
„Útvarpstilkynningar,“ sagði ég.
„Útvarpstilkynningar? Hvað er það?“
Já, þetta er furðu gamalt auglýsingaform.

Ég las pistil Halldór Armands í gær sem hann hafði flutt í útvarpinu þegar ég var ekki að hlusta (þess vegna las ég hann). Mér finnst hann oft áhugaverður í pistlum sínum þessi ungi rithöfundur. Í gær fjallaði hann um baráttu fólks fyrir eigin sjálfsmynd í hinni miklu skoðanaframleiðsluvél félagsmiðlana: „Læk er ekki yfirlýsing um það sem er lækað, heldur þann sem lækar … ég held að þetta geti verið mjög mikilvæg aðgreining. Læktakkinn var ekki hannaður svo fólk geti tjáð sig … heldur til þess að fólk geti tjáð sig um sig sjálft.“ Þetta orðaði ungi rithöfundurinn svo vel. Stundum finnst manni skoðanir einmitt dálítið ódýrar og fyrst og fremst settar fram til að lyfta eigin sjálfi frekar en maður sé tilbúinn að fórna sér, og jafnvel sinni þægilegu stöðu fyrir skoðanir sínar eða málstað sinn. Þá er betra að hafa „rétta“ skoðun því „röng“ skoðun getur valdið nokkrum óþarfa óþægindum.

ps. Fyrir þá sem eru áhugasamir um niðurstöðu dómnefndarinnar sem velur verðlaunabók Alþjóðlegu Bookerverðlaunanna (ég geri ráð fyrir að flestir lesendur Kaktusins hafi beðið spenntir) þá get ég upplýst það hér og nú – því enginn annar íslenskur fjölmiðill hefur komið auga á mikilvægi þessarar fréttar og mögulegar vinsældir – að Jokha Alharthi frá Óman hlaut hin eftirsóttu verðlaun fyrir bók sína Celestial Bodies. Ég þekki ekki bókina en vel getur verið að ég sæki hana hjá Amazon.

pps. Vinsælasta frétt mbl.is í gær var: Geymdi fánann í hægra stígvélinu en vinsælasta frétt RÚV var hins vegar: Matthías geymdi borðann ofan í stígvélinu.

ppps. Ég hlakka til að fylgjast með áframhaldandi umfjöllun mbl.is og ruv.is um réttindabaráttu Palestínumanna. Ég mun hins vegar halda áfram að fylgjast með framgangi skáldkonunnar frá Óman, Jokha Alharthi, og gefa reglulega skýrslu um málið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.