Espergærde. Að lesa 182 bækur á ári.

Eitt sinn var vitur maður (og af mörgum öfundaður) spurður hvert væri leyndarmálið á bak við velgengni hans. Hann var fljótur til svara og benti á mikinn bókabunka á borðinu hjá sér og sagði: „Að lesa 500 síður á hverjum degi. Þannig byggist upp þekking. Allir geta gert þetta en ég er handviss um að fáir fara að ráðum mínum.“

Þegar ég heyrði þessa frægu tilvitnun fyrir mögum árum, hugsaði ég með sjálfum mér að þetta gæti ég ekki. Ég mundi aldrei ná að lesa 500 blaðsíður á hverjum degi. Og svo hugsaði ég ekki meira um þetta fyrr en allt í einu í gær.

Ég sat nefnilega síðdegis út á garðbekknum hér við stofugaflinn í glampandi sól og logni og hefði átt að vera reykja vindil en var þess í stað að maula harðfisk með kettinum mínum. Ég hafði setið yfir tölvunni allan fyrripart dagsins og lesið yfir þýðingu mína. Allt í einu laust niður í kollinn á mér þessi gamla tilvitnun, eins og elding af heiðum himni: „Að lesa 500 síður á hverjum degi er lykillinn að þekkingu og visku.“ Og ég ákvað milli harðfiskbita að verða við þessari áskorun, það er í léttari útgáfu. Héðan í frá les ég eina bók, spjaldanna á milli, annan hvern dag. Frá og með afmælisdegi Sölva, 23. maí hefst mitt litla lestrarmaraþon. Fyrsta bókin sem ég les er Ráðgátan Henri Pick eftir David Foenkinos sem er franskur rithöfundur. Ég les bókina í íslenskri þýðingu Yrsu Þórðardóttur.

Ég hef reiknað: Meðallengd bóka er um það bil 50.000 orð (187 bls.) . Ég held að ég lesi um það bil 300 orð á mínútu (mig minnir að ég hafi reiknað út að ég lesi eina blaðsíðu á 2 mínútum). Ég fletti þó upp í Kindle sem reiknar lestíma og þeir segja að ég lesi 455 blaðsíður á 7 kls. og 27 mín. (447 mínútur/445)= 1 mín pr síðu.

Af þessu má ég reikna með að ég lesi meðalbók á rúmum þremur klukkutímum. Þannig að ég þarf bara að nota 90 mínútur á dag eða 550 klukkustundir við lestur til að ná að lesa 182 bækur næstu 365 daga.

Ég las líka einu sinni rannsókn sem sagði frá því að meðalmaður noti 2:22 kls. á dad á félagsmiðlum. Ég nota nánast engan tíma á félagsmiðlum og því ætti að vera auðvelt fyrir mig að ná markmiði mínu bara að nota þann tíma þegar aðrir hanga á facebook. Sjá graf:

Línurit yfir daglega tímanotkun á félagsmiðlum. Meðaltal.

Að lokum er vert að vitna í hinn ágæta mann Orhan Pamuk, rithöfund frá Tyrklandi sem sagði: „Einu sinni las ég bók og líf mitt breyttist.“

ps. Ég lofaði að segja frá skáldkonunni frá Oman sem vann Bookeverðlaunin í gær. Jokha al-Harthi er sigurvegarinn og fyrsta bók frá arabísku landi til að vinna þessi mikilvægu verðlaun. Í viðtali við The Guardian sagði hún meðal annars: „Rithöfundar frá Óman bjóða fólki frá öðrum heimshlutum til að kynnast Óman með opnum huga og opnu hjarta. En ég segi eins og er. Þetta er alltaf sama sagan: ást, vinátta, sársauki og von eru sammannlegar tilfinningar. Þetta eru sömu tilfinningarnar alls staðar í heiminum. En mannkynið á dálítið í land með að trú á þennan sannleika að svona sé þetta í alvöru.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.