Espergærde. Dugnaðardyggðin og linmennska

Mitt mikla bóklestrar-marathon hófst í gær, kannski ekki heppilegasti tími til að hefja slíkt langhlaup, því það er svo mörgu öðru sem ég þarf að sinna akkúrat þessa daga. Ég las í gær fyrstu 153 síðurnar í bók David Foenkinos Ráðgátan Henri Pick. Ég klára bókina í dag.

Ég gladdist óskaplega í gær, kannski meira en tilefnið gefur til, þegar ég las að vinkona mín Ásta S. Guðbjörnsdóttir var tilnefnd til Iceland Noir verðlaunanna 2019 fyrir þýðingu sína á Hinn grunaði herra X.

„Tilnefningar til Iceland Noir-verðlaunanna 2019 liggja fyrir, en verðlaunin eru veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga. Að verðlaununum stendur Iceland Noir glæpasagnahátíðin. Í ár eru tilnefnd þessi verk:
Hinn grunaði herra X, Keigo Higashino, Ásta S. Guðbjartsdóttir þýddi
Óboðinn gestur, Shari Lapena, Ingunn Snædal þýddi
Sænsk gúmmístígvél, Henning Mankell, Hilmar Hilmarsson þýddi
Tvöfaldar tjónabætur, James M. Cain, Þórdís Bachmann þýddi
Þrír dagar og eitt líf, Pierre Lemaitre, Friðrik Rafnsson þýddi
Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir og Ragnar Jónasson, allt saman stórkostlegt smekkfólk, yo!. Ég vona svo sannarlega að Ásta vinni. Gullverðlaun.

Það furðulega gerðist í gærkvöldi að ég sofnaði klukkan 21:00. Ég hafði lagt mig upp í sófa við hliðina á Davið sem horfði á einhverja kvikmynd í tölvunni sinni. Það lagðist ægileg værð yfir mig og ég ákvað að breiða teppi ofan á mig og svo vissi ég ekki af mér fyrr en klukka 22:00 þegar Davíð vakti mig. Ég gekk beinust leið upp að sofa og svaf í einum dúr til klukkan fimm í morgun, algerlega úthvíldur. En kannski er enn furðulegra að ég vaknaði með töluvert samviskubit yfir að hafa sofnað svona snemma og sofið svona mikið. Undir sturtunni í morgun átti ég samtal við sjálfan mig um þetta samviskubit og reyndi að útskýra fyrir sjálfum mér að það sé ef til vill ekkert rangt við að sofna snemma og sofa lengi. Dugnaðardyggðin liggur djúpt í mér og til að vinna upp þessa linmennsku að sofa svona lengi þaut ég út klukkan sjö í morgun og málaði tréverkið á húsinu og ákvað að kaupa málningu síðar í dag til að mála skúrinn um helgina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.