Espergærde. Niðurlæging hinnar samviskusömu prestsdóttur

Ég ætlaði að fara beint að sofa eftir afmælisveisluna í gærkvöldi, en í bílnum á leiðinni heim frá veislunni (Davíð var einn heima svo ég kom snemma heim) hlustaði ég á viðtal – tveggja tíma langt – við fótboltastjörnuna Alfreð Finnbogason. Þegar ég lagðist upp í rúm hélt ég áfram að hlusta. Ég var að vonast eftir uppljómun. Þannig er það með mig að ég hef áhuga á fótbolta og ég hef áhuga á bókmenntum. Þetta eru tvö af helstu áhugamálum mínum. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig ég gæti sameinað þetta tvennt í einni skemmtun.

Mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég frétti af útvarpsþáttunum, Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, þar sem m.a. reynt var að finna íþróttamenn sem hafa eitthvað annað til að bera en að vera góðir í sinni íþrótt, hefðu jafnvel listræna hæfileika. Þeir eru fáir íþróttamennirnir sem virðast hugsa um annað en eigin íþróttaiðkun en þessum útvarpsþáttum var ætlað að finna hina sérstæðu íþróttamenn, með fleiri víddir. Steinþór, tengdasonur minn, benti mér á þessa þætti fyrir mörgum árum og einhvern veginn kom ég á ská inn í útvarpsefnið, náði bara að hlusta á hluta þáttar um markmanninn Ólaf Gottskálksson sem mér þótti ekki sérlega áhugaverður og svo gleymdi ég þessum þáttum. En viðtalið við Alfreð Finnbogason, sem var prýðilegt, minnti mig aftur á þættina.

Ég ákvað því að taka hlustunina skipulega og hlusta frá byrjun, byrja á fyrsta þætti og rekja mig þaðan áfram. Og þetta gerði ég í morgun á meðan ég málaði skúrinn hér fyrir utan og náði ég að hlusta á þrjá fyrstu þættina. Mér finnst umsjónarmaðurinn, sem ég man bara ekki hvað heitir, Guðmundur Þorbjörnsson(?), komast vel frá vinnu sinni og ég vonast til þess að þegar ég hafi hlustað á alla þættina sjö hafi umsjónarmanni tekist að kveikja í höfði mér hugmynd hvernig ég get unnið að verkefni sem bindur þessa tvö áhugasvið saman í einum stórkostlegum samhljómi, yo!

Í morgun gerðist það líka, áður en ég málaði skúr og hlustaði á podcast, að ég fór út í póstkassann hér úti við enda gangstígsins. Ég hafði ætlað að ná í dagblaðið sem þar lá og beið morgunlesturs, en mér til nokkurrar undrunar lá líka póstkort frá Íslandi í póstkassanum með mynd af Einari Áskeli í faðmi pabba síns sem virðist vera að lesa fyrir hann kvöldsögu (það er ljós á lampa). „Þessir tveir feðgar eru á sama sporbaugi … ólíkt ýmsum öðrum …“ hljómuðu hin dularfullu skilaboð póstkortsins og þau undirrituð af nýjum samstarfsmanni mínum í verkefninu „Fellibylurinn Betsy“.

Ég gat ekki annað en glott yfir póstkortinu en þegar ég opnaði dagblaðið, sem ég hafði tekið inn og lagt á eldhúsborðið til lesturs á meðan ég borðaði hafragrautinn minn, var mér ekki hlátur í huga. Við mér blöstu tvær ljósmyndir af stjórnmálaleiðtoga Bretlands, Theresu May. Þetta þótti mér sannast sagna áhrifamiklar ljósmyndir sem sýndu þessa samviskusömu prestsdóttur þegar hún tók við embætti í maí árið 2016, brosandi og sigurglöð, og aðra ljósmynd frá deginum þegar hún, tárvot, tilkynnti afsögn sína þremur árum síðar eða í maí 2019. Ég læt myndirnar fylgja. Það er ekki annað hægt en að hafa samúð með konunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.