Espergærde. Páfagaukurinn

Skáld sem er búsett miðsvæðis í Reykjavík benti mér á að fá mér páfagauk til að tala við. Ég velti þessari ábendingu fyrir mér með opnum huga og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki góð hugmynd. Ég tala við sjálfan mig. Ég er ekki Hamlet og eintöl mín minna ekki á eintal Hamlets þótt ég búi ekki langt frá Kronborgarkastala og gæti vel hafa verið undir áhrifum frá hinum stóra meistara svæðisins. Kannski væri bara fínt fyrir mig að heyra páfagauk endurtaka mitt gáfulega hjal?

Gustav Flaubert sótti víst andargift sína í páfagauk sem stóð á skrifborði hans á meðan hann skrifaði skáldsöguna, Un Coeur Simple. Páfagaukurinn var uppstoppaður og hefur hvorki getað sperrt eyrun, hermt eftir hummi skáldsins eða truflað hann með ótímabærum hreyfingum eða öskrum. Julian Barnes notaði þennan páfagauk sem viðfangsefni í skáldsögu sinni, Flaubert’s Parrot.

Eintal mitt gæti fjallað um ítalska fótboltaliðið Sassuolo og græn/svörtu búningana þeirra sem mér finnst flottir. Eintal mitt gæti fjallað um SS89 þjóðveginn á norðurströnd Gargano; þar sem vesturströnd Ítalíu gengur eins og hanaspori út í Adríahafið. Það gæti fjallað um meinta hamingju einhleypra kvenna; þeirra sem af eigin frjálsa vilja, eða ekki, hafa aldrei eignast ástmann eða lífsförunaut. Það gæti fjallað um uppgang vinylhljómplatna (ef.) á tímum streymisveitna (ef.) og það gæti líka fjallað um eftirsjá skálda sem hafa gengið auðvaldinu á hönd.

Samtalsefnin við sjálfan mig eru óþrjótandi og ég þarf ekki páfagauk til að bergmála þau. Þótt páfagaukurinn Kíkí hafi verið í meira uppáhaldi hjá mér, þegar ég las Ævintýrabækur Enid Blydon, en Dísa og Anna og drengirnir tveir sem ég man ekki lengur nöfnin á. Ég þarf ekki annað en kött til að seðja mínar félagslegu þarfir, hlusta á mitt eilífa hjal. Kötturinn Gattuso, sem nú liggur við hliðina á mér, er félagi minn og sperrir eyrun þegar eintal mitt hefst.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.