Espergærde. Morgunverkin

Mánudagur og það rigndi á mig hér í Danmörku á göngu minni í morgun. Ég hafði ákveðið að fá mér stuttan göngutúr – eftir að hafa borðað morgunmatinn minn – til að byrja daginn með ferskt loft í lungunum. Ég hafði verið með hugann fullan af upphafskafla Ódysseifskviðu eftir James Joyce og gekk því í þungum þönkum. En strax þegar ég var á leið upp stuttu brekkuna hér í götunni fékk ég á tilfinninguna að ég ætti eftir að hitta Peter. Það er langt síðan ég hef hitt hann enda er hann ekki lengur á daglegri göngu með kaffibolla og hundinn í bandi. Hundurinn er kominn til annars fólks. Ég veit ekki hvað olli þessari sterku tilfinningu, kannski hef ég séð Peter út undan mér, kannski hefur lyktina af honum borist upp í mitt stóra nef, en nokkrum sekúndum eftir að hugsunin um Peter kviknaði í höfðinu birtist hann, klæddur svarta rykfrakkanum sínum, svefnúfinn um hárið og með kaffibollann í hendinni.

„Nei, mér varð einmitt hugsað til þín,“ sagði Peter broshýr þegar við vorum komnir í talfæri (kannski hefur hann jafn næmt nefskyn og ég?) „En þú lítur furðulega vel út. Ég læt samt ekki hugfallast. Þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður.“
Svona talar Peter. Og eftir stutt spjall um hrörnun líkamans og eflingu sálarinnar (í þessu tilfelli hans) kvöddumst við og ég gekk áfram leið mína.

Brátt var ég kominn upp á Stokholmsvej og léttur andvarinn frá Eyrarsundinu lék við mína nýklipptu lokka sem þegar voru orðnir votir í regninu. Ég velti fyrir mér að ganga niður á Strandvejen og koma við í blaðsöluturninum til að kaupa WeekendAvisen. Mig grunaði að þar væri að finna viðtal við Auði A. Ólafsdóttur, íslenska skáldkonu, sem ég gæti haft gaman af að lesa. (Skáldið er víst á söluferð hér í Danmörku þessa dagana og spjallar við blaðamenn. Ég rakst á ágætt viðtal við hana í Politiken í gær.) Á leiðinni mundi ég ganga framhjá bakaríinu (staldra við fyrir framan útstillingargluggann til að dást að berjakökunum) en ég mundi ekki fara inn. Ekki kaupa neina köku. Þetta gekk eftir. Ég gekk fram hjá bakaríinu, ég dáðist að fagurskreyttum kökunum; sykurhúðuð bláber, hindber og jarðarber í kökuskreytingunum glömpuðu bak við rúðuglerið, en ég keypti ekkert. Skammt frá liggur söluturninum, sem rekinn er af tyrkneskum manni með þykkt yfirskegg, og þar keypti ég hins vegar WeekendAvisen (endurnýjast dag frá degi minn innri maður, hugsaði ég um leið og reiddi fram greiðslu). Ég var eini viðskiptavinurinn þennan morgun. Flesta daga þegar maður gengur hjá þessari sjoppu, sem liggur við Strandvejen, sér maður í gegnum gluggana bakið á niðurlútum mönnum sem húka yfir spilakössum innst í skuggsýnu sölurýminu. En í dag voru þeir ekki á sínum stað, ekki vaknaðir, eða kannski voru þeir bara búnir með spilapeningana sína. Ég setti dagblaðið undir handlegginn og velti fyrir mér að setjast með blaðið á einn af bekkjunum niður á höfn. Það var hætt að rigna og geislar sólarinnar höfðu brotið sér leið í gegnum skýin. Ég staldraði við á gangstéttarbrúninni (til að láta bílumferðina á Strandvejen fara hjá) og hugsaði: Hvað nú? Á ég að snúa við og lesa blaðið heima, kannski í kvöld, eða á ég að láta bekkina niður á hafnargarðinum freista mín í sólinni.

Ég ákvað að snúa við. Það er óþreyja í mér. Mér finnst ég ekki hafa ró til að sitja á bekk, verkin kalla.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.