Það gerist fátt hjá mér þessa dagana. Ég fer vart út úr húsi; sit hér við skrifborðið mitt og puða (þýði, er á endaspretti), fer út í búð að kaupa í matinn, elda mat fyrir okkur strákana og geng frá í eldhúsinu eftir matinn og sest svo aftur við tölvuna þar til ég gefst upp, leggst upp í rúm og reyni að lesa áður en ég sofna. Þetta er ekki kjörtilvera finnst mér. En ég vil ljúka þýðingunni eins hratt og ég mögulega get.
Í morgun fékk ég gott bréf, langt og safaríkt, frá einum af mínum góðu íslensku félögum. Þegar ég las bréfið fór ég að hugsa hvað ég væri sólginn í svona fín bréf, nú þegar ég sit hér innilokaður og tala nánast ekki við aðra en sjálfan mig og strákana mína sem eru hérna heima. Í þessu einangrunarástandi finn ég hvað bréfin hafa mikla þýðingu fyrir mig og hvað ég gleðst mikið við að fá eitt og eitt tölvubréf; ég lyftist allur upp. Svona er að búa í útlöndum.
ps. Skyndilega birtist Huldar Breiðfjörð á skjánum hjá mér sem nýr FitBit-vinur. Það er gaman!
pps. ég tók mynd af bekknum mínum hér undir stofuglugganum.