Ég uppgötvaði um kvöldmatarleytið í gærkvöldi að Kim Leine, danski rithöfundurinn, héldi fyrirlestur í Humlebæk (næsti bær). Fyrirlesturinn átti að hefjast klukkan 20:00 og klukkan var kortér í svo ég þaut út. Ég hef varla farið út fyrir hússins dyr síðust daga svo mér fannst kominn tími til að sjá annað fólk. Ég náði í tíma og mér til nokkurrar undrunar var samkomusalurinn ekki fullsetinn og þó voru sætin ekki fleiri en eitt hundrað. Ég hélt að allir væru vitlausir í að heyra Kim Leine tala! Og hér væri samkoma með þúsundir áheyrenda. Yo!
Kim Leine kom stundvíslega klukkan átta, gekk varfærnislega inn í salinn, með sinn bónaða skalla og geithafursskegg, klæddur í bláa hawaískyrtu og í alltof stuttum buxum svo sást í bert skinn fyrir ofan sokkana. Hann er ekki tískuréttur þessi góði höfundur, hugsaði ég með mér. Ég fylgdist svo með honum ganga hikandi í átt að sviðinu og ég velti fyrir mér hvar stjórnendurnir samkomunnar væru og mér sýndist Kim hugsa það sama því hann skimaði í allar áttir. Enginn í salnum gerði sig líklegan til að taka á móti honum, bjóða hann velkominn. Hann steig upp á sviðið og tvísté þar. Ég gat ekki annað en vorkennt höfundinum að vera settur í þessa vandræðalegu stöðu rétt fyrir fyrirlestur og ég sá að áhorfendur skimuðu líka í kringum sig eftir einhverjum sem gat látið honum líða aðeins betur.
En svo kom ungur drengur með hátalara og einhvers konar headphone og byrjaði að græja Kim fyrir fyrirlesturinn og í sömu svifum birtist forstöðumaðurinn og heilsaði innilega áður en hann sneri sér að samkomunni til að kynna dagskrána. „Kim Leine byrjar á að tala í 45 mínútur áður …“
„Ha, á ég að tala í 45 mínútu?“ spurði rithöfundurinn og var augljóslega mjög hissa.
„Já, til klukkan korter í níu.“
„Nú?… OK … svo tala ég …“ Það var greinilegt að Kim hafði átt von á annars konar dagskrá, samtali á svið eða eitthvað annað.
En Kim kom mjög vel frá fyrirlestri sínum. Hann er mjög áhugaverður rithöfundur og setti viðstadda inn í ástæðu þess að hann ákvað að skrifa um Grænland og bakgrunninn fyrir skrifum hans.
Mér þótti gaman að heyra sögu hans um að hann hefði sem ungur maður ákveðið að verða rithöfundur. Hann vildi verða hin nýja Karen Blixen. Hann ákvað að leggja stund á nám í hjúkrunarfræði og lauk prófi. Síðan sótti hann um starf víða þar sem hann gæti komist til Afríku eins og Karen Blixen og hann ætlaði að nota reynslu sína af ævintýrum sínum þar til að gerast „storyteller“ eins og hann sagði. En svo var hringt frá Nuuk í Grænlandi og honum boðið starf í bæjarsjúkrahúsinu. Hann ákvað að taka atvinnutilboðinu og hugsaði mér sér að Grænlandi yrði hans Afríka.
Þegar ég skrifa þetta verður mér hugsað til Huldars, míns gamla höfundar. Honum ætti að vera óhætt að lesa þessa dagbókarfærslu, hugsaði ég. Við vorum í sambandi í gær, urðum allt í einu það sem kallast FitBit vinir án skiljanlegrar ástæðu. En hvað um það. Við Huldar spjölluðum saman og hann sagði, mér til nokkurrar undrunar, að honum þætti best þegar ég skrifaði um bækur og bókmenntir á Kaktusnum. Hann vildi ekki hafa á tilfinningunni að hann væri að kíkja á glugga hjá mér. Kíkja á glugga hjá mér? … Kíkja á glugga hjá mér? … Mér kom á óvart að skrif mín hér verka þannig á hann.
ps. Ég tók þessa glæsilegu sjálfsmynd. Er þetta ekki klassík?
