Espergærde. Herr forlagsdirektør

„Go’ morgen, herr forlagsdirektør,“ var hrópað til mín yfir götuna þegar ég gekk til vinnu í morgun. Handan götunnar veifaði til mín ágætur maður sem ég kannast við úr götulífinu; hann er sjúkraþjálfari, fótboltamaður og kátur karl. Ég svaraði kveðju hans og hélt áfram göngu minni.
„Þú ert glaður í dag, sé ég, óvenjuglaður,“ bætti káti kallinn við. „Það eru mikil viðskiptatækifæri í vændum.“

Mér þóttu þessi köll dálítið fyndin. Mikil viðskiptatækifæri í vændum! Já, hvað skyldi það nú vera?

Lestrarmaraþonið mitt gengur bara prýðilega. Að vísu hef ég ekki verið sérlega ánægður með bækurnar sem ég hef lesið. Sérstaklega finnst mér krimminn Óboðinn gestur alveg sérstaklega léleg bók. Ég les glæpasögur og metsölubækur af faglegum áhuga; hvað er að seljast, hvernig bækur eru þetta og hvert er viðfangsefnið. En Óboðinn gestur er bara hlægilega léleg bók, heimskulegt plott og vandræðalega barnaleg, þótt hún hafi verið á metsölulistum víða um heim.

En næsta bók verður vonandi betri Rachel Cusk, Outlines.

ps. Á meðan ég skrifaði um bóklestur minn kom inn í tölvupóstinn bréf frá einum af mínum góðu vinum sem benti mér á niðurstöður rannsóknar kanadíska sálfræðingsins Keith Oatley sem sýnir að bóklestur bætir félagshæfileika fólks svo um munar, auk þess sem bókaormar eru hjálpfúsari, skilningsríkari og ég veit ekki hvað. Eftir maraþonið mitt verð ég, ef að líkum lætur, ofurmenni í samskiptum við annað fólk, yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.