Espergærde. Donald Joð og Þorsteinn Joð.

Stundum er ég undrandi á þeim hjartaverkjum sem ég fæ; þá á ég við hjartaverki í yfirfærðri merkingu. Hér í Danmörku eru þingkosningar á miðvikudag og fjölmiðlarnir snúast um kosningarnar. Ungur maður, Rasmus Paludan býður sig fram undir merkjum flokks síns Stram Kurs. Hann hefur eitt baráttumál: að loka landinu fyrir múslimum og henda þeim múslimum sem eru í landinu út. Ekki sérlega viðkunnanleg stefna. En samt fæ ég undarlegan hjartaverk þegar ég sé þennan unga mann sem kallar svart fólk hottintotta og múslima almennt „samfélagstapara“(bein þýðing). En þegar ég fylgist með honum í kappræðum, þar sem hann verður stundum reiður, finn ég til með honum. Hann er svo aumkunarverður, einmana og hans litla „sýning“ þar sem hann brennir Kóraninn er eitthvað svo glötuð. En ég undra mig á að ég finni fyrir vorkunn þegar ég horfi á manninn sem hefur ekkert gott að segja.

Það sama get ég ekki sagt þegar ég horfi á forseta Bandaríkjanna, Donald J. Trump. Mér finnst hann viðurstyggilegur maður, illviljaður og heimskur. Og það furðulega með þann mann er að hann kemst upp með svo skelfilega hluti. Hann getur sýnt af sér fullkomið siðleysi án þess að það hafi hinar minnstu afleiðingar. Ef Obama hefði leyft sér samskonar tal eða samskonar hegðun og Donald J. Trump hefði hann verið settur samstundis af.

Þar sem ég er núna upptekinn af hinum góðu áhrifum bóklesturs á hjartað (yfirfærð merking). Þeir sem lesa margar bækur eru hjartaprúðari, hef ég lesið að niðurstöður rannsókna sýna, fór ég að athuga með lestrarvenjur Donald J. Trump. Mín kenning, sem ég leitað staðfestingar á, er að hann lesi ekki einn bókstaf. Hann hefur ítrekað verið spurður hvað hann lesi og svarið er alltaf það sama og kenning mín var staðfest: „I don’t have time to read books.“ Þetta svar hef ég nú séð í fjölmörgum greinum sem finna má með netleit. En samt hefur Donald fyrir sið að mæla með alls konar bókum sem eru honum þóknanlegar, sérstaklega eftir fréttamenn og fréttaskýrendur hjá FOX NEWS. Donald notar sinn Twitter-hátalara:

Um Liers, Leakers and liberals, Judge Jeanine Pirro
„Our great Judge Jeanine Pirro is out with a new book … which is fantastic. Go get it!” Donald J. Trump.
Um. Mad Politics, Gina Louton:
“Go out and get your copy today – a great read!” Donald J. Trump.
Um The Briefing, Sean Spicer:
„Really good, go get it!” Donald J. Trump.

Svona gæti ég lengi haldið áfram að vitna í innistæðulausa bullið í Donald J. Trump. En nú kemur stjórnmálagetraun til að lyft okkur upp. Yo! Verðlaun 1.000.000 dollarar. Hvað stendur J-ið fyrir í
1) Donald J. Trump
2) Þorsteinn J.
Dregið verður úr réttum lausnum.

PS ég flýg til Íslands í dag. Þetta er viðvörun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.