Hvalfjörður. Prufukeyrslan

Hver mínúta hér í Íslandsferð minni hefur verið skipulögð og lögð undir allt annað en að sinna mínum dagbókarskildum. Ég man ekki einu sinni hvort það séu einn eða tveir dagar sem ég hef ekki náð að skrifa, og ég segi það satt: ég hef samviskubit yfir að bregðast sjálfum mér á þennann hátt. Við komum seint á þriðjudagskvöldið með Boeing flugvél Icelandair frá Kaupmannahöfn og brunuðum hingað í hina nýju Sumarhöll í Hvalfirði. Ég er gífurlega ánægður með að við skildum hafa lagt í að byggja þetta hús. Þetta er hreint stórkostlegt fyrir mig að eiga bækistöð hér á Íslandi. Frá því við opnuðum dyrnar hefur annað hvort verið sinnt frágangi, skrúfað, sett saman, lagað, borið á milli staða eða sinnt gestum.

Í gær kom lítill hópur – Palli Vals, Nanna og Kalman – í bjór og dregið svínakjöt (pulled pork). Á dagskrá var að prufukeyra húsið sem lítið samkomuhús. Prufukeyrslan tókst stórvel. Ekkert nema ánægjan að hafa þessa næturgesti. Og alltaf gaman að geta haft svefnlitila gesti í morgunmat.

Í dag höfum við sinnt erindum inni í Reykjavík og Agla fékk að fljóta með okkur þeysa á milli staða til að afgreiða hvert erindið á fætur öðru. Eiginlega var mikilvægasta erindi dagsins – það var satt að segja söguleg stund – að sitja stuttan fund í kjallara í Skeifunni til að handsala samning um verkefnið Fellibylurinn – og það í þessum myrkrakjallara. Flýtirinn á mér var svo mikill – ég átti margt ógert – að fyrst núna er ég að átta mig á þessum stórkostlega áfanga. Ég geri ráð fyrir að við förum í loftið um miðjan október.

Ég er ekki í stuði til að skrifa eins og sjá má og ég dreg mig því í hlé núna og safna kröftum fyrir færslu morgundagsins.

Kalman í morgunham

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.