Í heimsókn Palla Vals fyrr í vikunni nefndi hann að við Saurbæjarkirkju, sem blasir við úr suð-austurglugga sumarhússins hér í Hvalfirði, sé steinn; svokallaður Hallgrímssteinn. Sagan segir að þangað hafi séra Hallgrímur gengið á hverjum degi þegar hann orti Passíusálmana. Í morgun, þegar ég horfði niður til kirkjunnar baðaða í morgunsólinni datt mér í huga að fara niður að kirkjunni og finna steininn sem Palli hafði talað um.
Við kirkjuna var ekki nokkur sála og mér til nokkurrar undrunar var algert logn í brekkunni við kirkjuna. Ég sá ekki betur en að sjálfur prestsbústaðurinn, sem stendur við hlið kirkjunnar, væri líka yfirgefinn. Út í bakgarði prestsbústaðarins hafði augljóslega einhver (mér datt í hug prestsfrúin, sem gæti verið alger vitleysa), einhvern tíma, ræktað kryddjurtir af miklu kappa. Óteljandi balar fullir af mold og hálfdauðum plöntum stóðu á stétt bak við bústaðinn. Þetta var dapurleg sjón; þessi mikla órækt í plastbölum rétt við inngönguhlið kirkjunnar. Eiginlega gleymdi ég upphaflega erindi mínu við kirkjuna þegar ég sá að suður af Saurbæjarkirkju var pínulítill og snotur kirkjugarður, taldi varla meira en fimmtíu leiði, sum eldgömul. Og í einu horninu hefur gamalt, vindsnúið birkitré lifað af hina hvalfirsku storma.
Ég hef stundum fundið fyrir örlitlum beyg þegar ég hef gengið um kirkjugarðinn í Espergærde og ímyndað mér að ég verði grafinn í þessari dönsku mold fjarri minni gömlu heimabyggð. Það kviknaði því hugmynd að kannski væri óvitlaus að skoða Saurbæjarkirkjugarð. Hér verður mitt annað heimili og ekki úr vegi að maður leggist til hinstu hvílu ekki fjarri þessum góða stað.
