Kystbanen. Ný keppni

Vel heppnuð Íslandsferð að baki og nú sit ég í Kystbanen á leið frá flugvellinum í átt til Espergærde. Það var gestkvæmt í þessari stuttu dvöl. Daglegar gestaheimsóknir, margmennt og góðmennt. Ég er auðvitað ánægður því það hefur alltaf verið tilgangur byggingar sumarhússins í Hvalfirði að hafa samastað þegar við komum til Íslands og stað þar sem við getum tekið á móti okkar fólki.

Í gær komu Søs og Rosa, vinir okkar frá Humlebæk, sem eru hér í hestaferð. Næstu daga sitja þær á hestbaki upp með Þjórsá undir leiðsögn Bjarkar Jakobsdóttur, leikkonu og ég veit ekki betur en að hestar Palla og Nönnu séu notaðir sem reiðhestar.

Í gær kom líka sá mæti maður Jón Karl og með honum í för var enginn annar en hundurinn Týr. Við Jón Karl áttum mikilvægt verkefni fyrir höndum; þurftum bæði að skilgreina endanlega leikreglur og verðlaun í keppni okkar sem hefur í raun staðið í nokkur ár en nú dregur jafnvel til tíðinda; ef allt fer á besta veg finnst sigurvegarinn í vetur og þá er eins gott að vita nákvæmlega í hverju er keppt og hver sigurlaunin eru. (Eins og venjulega í keppnum okkar er verðlaunaféð ferð til Parísar og nú með aukatvisti; gisting í Batmaníbúð).

Annars er það kannski tímanna tákn að oft snerust umræður við matarborðið um umhverfismál; hvað telst rétt hegðun og hvað ber einstaklingi að gera. Þetta er kannski eðlilegt umræðuefni í ljósi þess að Jón Karl hefur hafið mikið mission til að bjarga jörðinni og heldur í því skyni út dagbók þar sem hann setur fram vangaveltur sínar um þetta nýja áhugamál sitt. Svo var Sandra líka á ferðinni, annar ötull baráttumaður fyrir jarðarkringlunni.

Ég sjálfur er kannski svolítið kaldhæðinn út þessa umhverfisbaráttu, þar sem mér finnst hún frekar vera nær eins konar identitets-tæki en raunverulegri baráttu, sem krefst stórra lífsstílsfórna. Ég vil að sjálfsögðu stuðla að hreinni heimi, og hugsa mig vandlega um áður en ég hleypi Co2 út í loftið eða menga á annan hátt. En það er margt sem ég er bara ekki tilbúinn að gefa upp á bátinn; til dæmis ferðalög, klæðast fötum, eiga tölvu og síma … og ég viðurkenni það. Ég er tilbúinn að reyna að bæta fyrir syndir mínar, planta trjám eða hvað eina en ég er ekki tilbúinn að fórna öllu fyrir hreinna líf. Ég veit að það sem ég geri hefur nánast engin áhrif ég get bara sýnt vilja, hegðað mér á táknrænan hátt. Mér finnst það til dæmis bara hálfgert prump að neita að borða kjöt fimm sinnum í viku, neita að drekka nespresso-kaffi, en samtímis fljúga hiklaust til útlanda, keyra í vinnuna, kaupa föt þegar manni listir, drekka vatn út plastflösku …

Í sumarhúsinu er hið pólitískt órétta nespresso-kaffi á boðstólum. Hlægilegir smámunir. Tveir af gestum mínum fussuðu og ég átti að fá vonda samvisku yfir því. Framvegis býð ég þeim upp á neskaffi og þeir geta þá ekki leyft sér að drekka dósabjór í mínu boði. Yo!

ps keypti í Keflavík bækurnar sem mig hafði dreymt um: Kalak, Kim Leine og Bjargfræði, Samantha Schwablin.

Nýju bækurnar mínar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.