Espergærde. Fordæming á bankadrengjum

Lestrarmaraþon mitt missti aðeins flugið á meðan ég dvaldi á Íslandi, það var hreinlega ekki tími til að lesa og þegar ég lagðist upp í rúmið voru augnlokin bara alltof þungt til að halda þeim uppi. Sama hvað ég reyndi þá duttu augngardínurnar bara niður þegar ég beindi augunum á bókasíðu og ég sofnaði.

Þó las ég Smásögur heimsins, það er hálfa bókina eða helming sagnanna. Mér fannst sögurnar misjafnar; sumar góðar og aðrar höfðuðu ekki til mín en sjálft framtakið að safna saman smásögum frá öllum heiminum finnst mér stórgott og eiga Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason mikinn heiður skilið fyrir óeigingjarna vinnu sína.

Hin bókin sem ég las á Íslandi var Kaupthinking eftir blaðamanninn Þórð Snæ Júlíusson. Ég sé á bókakápu að menn eru himinlifandi með þessa bók og Palli Vals afhenti mér bókina með orðunum að maður læsi þessa bók eins og besta krimma; maður sæti hreinlega á sætisbrúninni af spenningi. Það voru því töluverðar væntingar þegar ég opnaði bókina.

Í stuttu máli varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með Kaupthinking. Bókin er í sjálfu sér frekar upplýsandi um störf Kaupþings, það sem fór úrskeiðis við reksturinn og þau mistök sem stjórnendur bankans gerðu. Það er greinilegt að blaðamaðurinn talar af nokkurri þekkingu. Þó finnst mér höfundur ekki sérlega góður að skýra þær peningafléttur sem bankinn drógu fram úr erminni. Til að skilja fjármálagjörningana þarf maður að hafa nokkra reynslu í viðskiptum og ég held að útskýringar höfundar séu ekki sérlega upplýsandi fyrir þorra almennings. Það er auðvitað matsatriði hversu miklu púðri höfundur á að eyða í tæknileg atriði. En það sem fór mest í taugarnar á mér er hinn fordæmandi tónn í skrifum blaðamannsins; mér finnst hann skorta yfirvegun og hlutlægni. Ég get ekki tekið undir þá skoðun að þessir bankadrengir hafa einungis verið drifnir áfram af peningagræðgi. Myndin í mínum augum er miklu flóknari og koma nokkuð fleiri þættir inn en hinn ljóti löstur græðgin. Ég er kannski naívur en ég get ekki séð þá Sigurð Einarsson og Hreiðar Má í svona einvíðri mynd. Bankinn, undir stjórn þessara bankadrengja, hraktist smám saman út á ólgusjó þar sem krafðist ofurkrafta til að stýra honum burt frá bjargbrúnni þangað sem hann stefndi hraðbyri síðustu árin fyrir fallið mikla. Í þessu stjórnleysi tóku þeir til ýmissa ráða til að redda hinu stjórnlausa skipi; sumar ráðstafanirnar voru kannski ekki sérlega skynsamlegar þegar litið er í baksýnisspegilinn.

En nú er ég aftur sestur á skrifstofuna mína, tónlistin dunar, kaffið ilmar og ég er búinn að stilla upp verkefnum dagsins. Hinn góði hversdagur hefur tekið við og í kvöld kemur Jón Kalman til gistingar í nokkra daga. Gaman að því. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.