Espergærde. Lélegar afsakanir

Þetta er að verða hálf neyðarlegt finnst mér hvað ég er orðinn slappur að halda rútínunni að skrifa einu sinni á dag hér á Kaktusinn. Síðastliðnar vikur hef ég svindlað nokkrum sinnum, ítrekað sleppt úr degi í dagbókarskrifum. Gærdagurinn var svona dagur, sorry, Snæi minn. Ég gæti reynt að afsaka mig með því að ég eigi annríkt en sú afsökun kynni að hljóma hjárænuleg í mínum eyrum og margra annarra. Ég er ekki í fastri vinnu heldur sulla í alls konar verkefnum og ætti því að geta sett dagbókina framar í forgangsröðinni.

Ég gæti líka notað það sem afsökun að ég hef á heimilinu gest og ef maður hefur gesti þarf maður að sinna þeim og á meðan maður sinnir þeim sinnir maður ekki öðru. Jón Kalman hefur verið gestur okkar síðastliðna daga og verður fram á föstudag. Auðvitað algjörlega stórkostleg gleði fyrir mig að hafa minn góða vin hjá mér, mér til uppörvunar og skemmtunar. En það kemur niður á dagbókarskrifum ef maður þarf á afsökun að halda. Nú er hann aukamaður hér á skrifstofunni (sjá mynd).

Skáldið við skrifstofustörf.

Já, og nú kemur bomba: B-O-B-A! Sus, ferðastrumpur fjölskyldunnar, er búin að panta flugmiða (CO2!!!) til Íslands þann 20. desember og heim aftur með öðru flugi (CO2!!!) þann 5. janúar. Sem sagt löng dvöl í Hvalfirði yfir jól og áramót. Hvað ætli ég þurfi að planta mörgum trjám til að jafna út þessa CO2 synd?

dagbók

Skildu eftir svar