Espergærde. Heimsókn útgefandans (gestapenni)

Í síðustu viku fékk ég heimsókn hingað til Danmerkur frá ágætum vini mínum sem ég er svo heppinn að hafa þekkt í áratugi. Þegar við hittumst höfum við það fyrir reglu að lesa upp úr dagbókum okkar, einn útvalinn dag, enda skrifar þessi félagi minn daglega í dagbók sína (ólíkt slugsinu í mér sem missi úr dag og dag). Færslurnar eru skrifaðar með svörtum penna (fermingargjöf) inn í línustrikaða bók með frekar vönduðum pappír (mér finnst pappírinn alltof þykkur).

Ég fékk leyfi til að birta hér á Kaktus færslu frá 23. apríl sem lesin var fyrir mig og hljóðar svo.

„Þá er hann runninn upp dagurinn sem allir hafa beðið eftir. Dagur bókarinnar. Ég var rétt búin að opna augun og skrönglast fram í eldhús til að hella upp á morgunte þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann og sá að bærinn var allur prýddur fánum. Það tók mig nokkra stund að skilja hverju þessu sætti; af hverju allir þessir fánar væru dregnir að hún. Ég skildi auðvitað strax að þessi dagur hlyti að vera hátíðardagur og eitt augnablik hvarflaði að mér að ég sofið svo lengi að 17. júní væri runninn upp án þess að ég hefði orðið var við gjörvallan maímánuð og hálfan júnímánuð.

Er ég að deyja? hugaði ég. Er lífið að seytla úr mér og dagarnir að líða hjá án þess að ég taki eftir því? Eftir að hafa staldrað eitt augnablik við þessar dapurlegu hugsanir, og ég var sannarlega áhyggjufull, rann upp fyrir mér að 23. apríl (ég hafði litið á tæknisímann minn sem sýnir á skjá bæði nákvæman tíma og dagsetningu) væri dagur bókarinnar og því væri borgin skrýdd þessum hátíðarbúningi.

Sjálf hafði ég ákveðið að halda mig frá örtröðinni í bókabúðunum sem var óhjákvæmileg í dag þótt ég ætti þangað nokkuð brýnt erindi. Ég hef aldrei verið mikið fyrir mannmergð. Á rigningardegi sem þessum finnst mér best að búa mig undir inniveru; klæðast þykkum ullarsokkum svo ég geti liðið algerlega hljóðlaust um trégólfið í íbúðinni. Þegar ég færi mig frá einu herbergi til annars myndast ekkert hljóð, eins og ég sé draugur sem svíf um gólfin.

Dagurinn leið því í þögn. Aðeins einn aðili hafði samband við mig í dag; hása skáldkonan með litaða hárið og hún gladdi mig aldeilis með kaldhæðnislegu hjali sínu um félaga sína í rithöfundastétt. Það var frekar hressandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.