Espergærde. Að koma skakkt inn.

Seint í gærkvöldi barst mér tölvupóstur frá konu sem ég hafði haft örlítil samskipti við í síðustu viku. Fyrr um kvöldið höfðu verið hjá mér í kvöldmat ágætt vinafólk (ég er satt að segja búinn að hafa gesti hjá mér samfellt í hálfan mánuð (en engir gestir koma í kvöld) og ég fór því seint að sofa. Eftir að hafa gengið frá óreiðunni í eldhúsinu og burstað tennur, ætlaði ég að leggjast til svefns. En eins og kjáni kíkti ég fyrst á tölvupóstinn minn. Í innbakkanum beið mín svar frá þessari konu sem ég hef verið í samskiptum við, en leiðir okkar hafa legið saman vegna þrifa á sumarhúsinu okkar í Hvalfirði.

Ég hafði hitt konuna einu sinni á hálftíma fundi þegar ég var á Íslandi í síðustu viku, en mér var bent á hana vegna þess að hún hafði falast eftir ræstingarstörfum í sveitinni. Á fundi okkar sýndi hún áhuga á að taka að sér að þrífa húsið þegar gestir hafa verið í húsinu. Þetta var því ekki stórt verkefni – þrif hámark tvisvar í mánuði. En svo kom að því að semja um kaup og kjör. Ég sagði henni við byggjum í útlöndum og hefðum dvalið lengi ytra og værum því ekki kunnug þeim launakjörum sem tíðkuðust fyrir slík störf hér á landi. En hún veigraði sér við að nefna tímalaun þegar ég bað hana um það og hún vildi frekar að ég nefndi einhverja tölu – þótt ég ítrekað benti henni á að ég ætti erfitt með það. Urðum við sammála um að ég leitaði upplýsinga hvaða taxti væri eðlilegur.

Ég sendi út fyrirspurnir til vina og kunningja og fékk afar ólík svör. Ég leit á nýja taxta Einingar til að sjá hvað kjör verkalýðshreyfingin hefði samið um fyrir umbjóðendur sína. Ég hafði líka samband við þvottahús í Reykjavík til að heyra hvað þau tækju fyrir þvott á rúmfötum og handklæðum. Upp frá þessum upplýsingum sauð ég saman tilboð fyrir konuna. Tímalaunin sem ég bauð voru tvöfaldur efsti taxti Einingar fyrir þrif auk þess bauð ég sama verð fyrir þvott og efnalaugin Björg býður viðskiptavinum sínum. Ég taldi mig vera gera vel við konuna en ítrekaði bréfi til hennar að ég vildi að hún liti á tilboðið og segði mér hvort hún teldi það sanngjarnt og svo gætum við rætt tilboðið og aðlagað það að veruleikanum. Eins benti ég henni á í bréfinu að ég hefði satt að segja enga tilfinningu fyrir íslenskum krónum og því væri mikilvægt að hún leiðrétti mig ef ég væri á rangri braut.

Og svo kom svarið frá konunni – samið seint um kvöld – og ég hef sjaldan fengið jafn kurteislega dónalegt bréf. Ég varð gersamlega miður mín og það rétt fyrir svefninn. Þvílíkt rugl. Mig hafði ekki grunað að ég skyti svona langt framhjá væntingum hennar með boði mínu. Fyrstu viðbrögð mín við bréfinu var að ég fór að gruna að um einhvern misskilning væri að ræða. Svona bréf gat maður ekki skrifað með fullri rænu. En ég svaraði konunni þó af eins mikilli kurteisi og mér var unnt og sagði henni að við næðum augljóslega ekki saman. Hún skyldi bara gleyma mér og þrifunum. Við fyndum aðra lausn. En nú er ég hræddur um að þessi kona beri út einhverja vitleysu um mig í sveitinni og ég hef engan áhuga á að koma svona skakkt inn í líf sveitarinnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.