Espergærde. Hipster í ímyndarbaráttu

Inn um gluggann hér á skrifstofunni berst þessi sérkennilega lykt af brenndi járni. Þeir eru að skera eitthvað járn, vinnumennirnir við húsbygginguna handan götunnar. Þótt hér, eins og á Íslandi, sé 17. júní er engin hátíð í Danmörku. Ég sit við mín störf á skrifstofunni, þýði af kappi, drekk kaffi og hlusta á tónlist. Ekkert minnir á þjóðhátíð.

Vel á minnst; ég drekk kaffi. Félagi minn hálfhipsterinn, Carsten, mikill auglýsingamógull og með puttann á púlsinum sendi mér í gær poka með því heitasta af öllu heitu. Ný tegund af kaffi frá Ítalíu MAMA sem farið er að selja í samkeppni við „the evil empire“ Nespresso. Hipsterarnir hér í landi flykkjast um þessa kaffitegund því þeim finnst það passa betur við ímynd sína. Ég smakkaði kaffið í morgun, tvær mismunandi bragðtegundir og ég verð að viðurkenna að kaffið stenst ekki samanburðinn við KAAZAR frá Nespresso.

Ég hef tekið eftir að menn hafa horn í síðu Nespresso og ég skil það að sumu leyti vel, öll þessi umgjörð um kaffið, lúxusbúðirnar og allt þetta prjál í kringum ekkert. En gagnrýni fólks snýst fyrst og fremst, ef ég skil rétt, um náttúruspjöllin sem hljótast af Nespresso-hylkjunum. En ég kaupi það ekki því þeir sem hafa hæst í gagnrýni sinni og velja til dæmis þessa nýju tegund kaffihylkja (sem eru gerð úr plasti (olíu í föstu formi) og hvert hylki er pakkað inn í álpakkningu). Sjá mynd. Sem sagt miklu skaðlegra en Nespresso-hylkin sem eru endurunninn eftir notkun. Þar fyrir utan er „take away kaffi“ með plastloki(!) eitt helsta kennimerki þessa ágæta hóps gagnrýnenda. Því miður virðist það svo í mínum augum að ímynd gagnrýnendanna (eigin ímynd og ímynd Nespresso) er mikilvægari en sjálf ástin á náttúrunni.

Ég veit svo sem ekki hvað ég er að verja Nespresso, eins og fyrirtækið sé mér eitthvað hjartans mál. Það er það alls ekki, en mér finnst hin sjálfgefna rétthugsun svo örgrandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.