Espergærde. Raunveruleika-stjarna fælir mig frá útvarpi

Ég veit að það kann að hljóma undarlega en ég er enn svo ánægður með mína miklu fjárfestingu á Íslandi, þráðlausu heyrnartólin (headphones). Um langt árabil hef ég notast við hálfónýt, hvít heyrnartól frá Apple; það heyrðist bara í öðru eyranu og hverju hljóði fylgdi töluvert urg. Ég átti því erfitt með að greina hvað hljóðin sem bárust inn í eyrun á mér þýddu. Einn af mínum persónulegu kostum (að eigin mati) fyrir utan að vera sérstaklega góður að bera, bæði poka og þunga hluti, er að ég hef alla tíð verið nægjusamur (aftur að eigin mati). Það er þess vegna sem ég hef látið mér þessa hörmulegu heyrnartól duga þegar ég er á gönguferð og hlusta á útvarp, tónlist eða hljóðbók.

En nú er öldin önnur. Með þessum stórkostlegu þráðlausu heyrnartólum heyri ég minnstu blæbrigði hljóðanna sem berast inn í eyrun. Ég er svo sannarlega glaður. Þetta hefur meðal annars haft þær afleiðingar að ég er, í bili að minnsta kosti, hættur að hlusta á útvarpsþáttinn Lestina. Ég varð allt í einu svo þreyttur á of miklu af trivial efni. Ég fékk skyndilega nóg þegar Lestin flutti, í annað sinn á tveimur dögum, fullkomlega óinteressant umfjöllun um raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian og samtöl hennar við ameríska fanga sem allt í einu eru orðnir að tískubólu. (Ég get sagt frá því hér innan sviga að ég hef hitt Kim Kardashian á veitingastað í New York. Samtal okkar snerist um allt annað en smákrimma í amerískum fangelsum.) Eins hefur myndlistarumfjöllunin þáttanna farið nokkuð fyrir brjóstið á mér, þar finnst mér sjaldnast ég heyra eitthvað áhugavert.

Nú hlusta ég á hljóðbók, A Little Life, Hanya Yanagihara – hluti af mínu góða lestrarmaraþoni – í öllum mínum göngutúrum. 32 tíma lestur frá upphafi til enda og bókin lofar góðu.

En það er þrennt sem ég hugsa um nú þegar ég er að ljúka dagbókarskrifum dagsins:
1) Þvílík rosaleg læti eru hér fyrir utan. Sólin skín og ég neyðist til að hafa opna glugga, annars er óbærilegt hér inni vegna hita. En nú er nánast ógerlegt að hugsa fyrir vinnuvélalátum sem berast inn um opna glugga; vörubílar, borvélar, traktorar, valtarar…
2) Ég þarf að fara inn til Kaupmannahafnar í dag. Með lestinni. Ég á þar stefnumót við rithöfund og umboðsmann hans.
3) Playlistinn, lagalistinn, fyrir ferð okkar suður til Ítalíu (ég geri ráð fyrir að keyra um það bil 6000 km í sumar ; Danmörk, Frakkland, Ítalía, Danmörk) er í mótun. Fjölskyldan er farin að mótmæla mínum gamla góða lagalista sem þó hefur þróast í tímans rás og krefst þess að fá nýjan. Nú er hann sem sagt á teikniborðinu, lagalistinn, og það er ekki auðvelt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.