Espergærde. Tvístígandi maður bíður eftir opnun samkomu

Í gær þvældist ég inn til Kaupmannahafnar með lestinni þar sem ég átti stefnumót við rithöfund og umboðsmann hans. Ég var víst nokkuð tímanlega á stefnumótið og hafði rúman klukkutíma fyrir sjálfan mig í sólinni í höfuðstað danska konungsveldisins. Og hvað gerir maður eins og ég þegar klukkutíma er aflögu fyrir sjálfan sig í höfuðstað, í stórborg:
1) Ég fór inn í bókabúð (keypti 4 bækur) og vesenaðist inni í búðinni í korter eða eitthvað þvíumlíkt til að kanna hvað gerðist á dönskum bókamarkaði.
2) Ég settist á kaffihús og keypti mér kaffi og kanilsnúð. Mér líður vel einum á rölti um höfuðstað og ég hafði það gott í hörðu sæti við útiborð á stéttinni fyrir utan kaffistaðinn, nartaði í snúðinn minn, drakk kaffið og fylgdist með því sem fram fór í Fiolestræde (það var í þeirri götu stefnumótið átti að fara fram).

Í Fiolestræde var opnað nýtt bókakaffi í gær og opnunarathöfnin átti að fara fram klukkan 17:00. Það var þegar farið að safnast saman fjölmenni fyrir utan staðinn rúmlega hálf fimm. Með þessum mannsöfnuði gat ég fylgst með úr sætinu mínu á kaffistéttinni. Ég þekkti auðvitað marga sem vildu fagna þessari opnun því eigandinn, Anne, er fyrrum starfsmaður Gyldendals bogklub og því var fólk úr danska bókabransanum á ferð. En sjálfur var ég ósýnilegur þar sem ég sat í mannþrönginni á kaffistéttinni.

Ég tók aðallega eftir einum manni, sennilega á sjötugsaldri, sem ætlaði augljóslega að taka þátt í hátíðarhöldunum. Í stað þess að taka sér stöðu meðal mannfjöldans fyrir framan nýja bókakaffið og vera á meðal gestanna tvísté fyrir framan kaffistaðinn minn sem var 50 metrum neðar í götunni en nýja bókakaffið. Ég sá að hann skimaði ítrekað í áttina til mannsafnaðarins til að athuga hvort samkoman eða móttakan væri hafin, hvort dyrnar væru opnaðar. Hann var einn á ferð og hélt á vel notuðum plastpoka. Ekki veit ég hvað hann flutti í pokanum en ég gat mér þess til að þarna hefði hann einhvern glaðning fyrir hinn nýja bókakaffiseiganda. Á öllu látbragði mannsins og hiki – hann gekk satt að segja í hringi í kringum sjálfan sig – sá ég að hann var ekki rólegur og að honum leið ekki vel með að vera einn þarna á ferð og ætla til þessarar fjölmennu samkomu.

En ferðin í bæinn var góð fyrir mig – ég komast ekki hjá að hitta töluvert af fólki sem ég þekki – og stefnumótið heppnaðist með besta móti.

ps. Ég gleymdi að taka ljósmynd inni í Kaupmannahöfn í gær því læt ég mynd af bygginguna handan götunnar nægja. Ég bendi á að múrsteinsklæðningin er að fæðast, sjá hvernig hún er byrjuð að klifra upp vegginn. (sjá mynd)

dagbók

Skildu eftir svar