Espergærde. Hún brosti vinsamlega yfir risasamlokunni minni

Ég gerði undantekningu í gær og fór ekki heim að borða hádegismat eins og ég er vanur. Sus var ekki heima svo ég ákvað bara að fara út í búð og sjá hvort ég gæti keypt mér eitthvað ætilegt í hádeginu. Ég ráfaði um búðina í leit að æti og á endanum ákvað ég að kaupa samloku með roast beef (og öllu því remólaði sem slíkum brauðrétt tilheyrir). Mér fannst þetta satt að segja ansi stór samloka og var hálfóöruggur með hana. Ég borða ekki svo mikið brauð en á leið minni í átt að kassanum rakst ég á steikta kjúklingabita, tvö fín læri á frauðplastbakka (náttúran, Co2!!). Ég bætti lærunum við væntanlegan hádegisverð þrátt fyrir að hann væri þegar ríkulegur og tók svo Pepsi Max úr ísskáp búðarinnar. Ískalt Pepsi Max.

Ég var að greiða fyrir vörurnar við búðarkassann þegar konan sem stóð fyrir aftan mig í röðinni vék sér að mér. Þetta var eldri kona með vinalegan svip; eiginlega móðurleg.
„Er þetta dagskammturinn?“ segir hún og bendir á vörurnar sem ég er að setja í poka. Kjúklingur á bakka, risasamloka með roast beef-áleggið lafandi út eins og hundstungu og Pepsi Max (ískalt).
„Ja … þetta er nú eiginlega bara hádegismaturinn minn,“ segi ég svolítið undrandi á að vera ávarpaður á þennan hátt. Ég held að ég hafi ekki verið skömmustulegur, kannski frekar stoltur yfir að geta veitt mér svona fínan hádegismat.
„Og kvöldmatur, er það ekki?“
„Nei, þetta er bara hádegismatur. Ég get borðað mikið …“
„Já, og svona grannur eins og þú ert. Þetta er aldeilis hádegisskammtur fyrir einn mann …“ Hún brosti vinsamlega.

Ég sá alveg hvað konan átti við, þessi risastóra remólaði samloka var nánast máltíð fyrir fjóra. En ég gekk af stað með pokann og velti fyrir mér hvar ég ætti að láta matinn ofan í mig. Ekki fannst mér fýsilegt að borða á skrifstofunni, þar er engin aðstaða til þess nema við skrifborðið og ég nennti ekki að borða fyrir augum skrifstofufélaga míns.

Ég gekk því inn í skóginn sem er hér rétt handan við skrifstofubygginguna. Ég stikaði eftir skógarstígunum og svipaðist eftir bekk. Sólin skein og vindurinn bærðist ekki. Í skóginum var fólk á gangi með hunda sína, eiginlega töluverð umferð gangandi fólks og hunda og ég komst að þeirri niðurstöðu að ég nennti ekki að sitja við skógarstíginn og reyna að koma þessari risasamloku upp í munninn á mér með allt þetta fólk á vappi í kringum mig. Og hunda. Þeir myndu aldeilis slefa yfir roast beef álegginu.

Ég setti því stefnuna niður á höfn, þar eru bekkir úti á hafnargarðinum og þar fengi ég frið til að borða þessa risasamloku. Ég var meira að segja búinn að ákveða að borða kjúklinginn áður en ég borðaði brauðið. Kjúklingur í forrétt. Ég verð svo saddur af brauði og ef ég átti að njóta kjúklingsins væri betra að hefja máltíðina á steiktum vel krydduðum kjúklingalærum og skola niður með ískaldir Pepsi Max. Ég hlakkaði til. Við höfnina var þessi dásamlega birta; geislar sólarinnar endurspegluðust í slettum haffletinum og allir bátarnir voru svo skínandi hvítir, gljáandi og hreinir. En þar, eins og í skóginum, var allt fullt af fólki. Á bekkjunum úti á hafnargarðinum, sem ég hafði séð fyrir mér sem ákjósanlegan stað til að neyta máltíðar í friði, sat fólk og borðaði ís, drakk bjór, vatn, gos, te, vín, kaffi … eða bara sat og virti fyrir sér lífið í höfninni. Þarna gat ég ekki borðað risaremólaðisamloku.

Það var ekki um annað að ræða en að snúa við og skrifstofan var eini staðurinn sem mér datt í hug. Þar var griðarstaður, þó ekki kjörstaður. Ég gekk inn á loftlausa og glóandi heita skrifstofu. Skrifstofufélagi minn sat með vatnsflösku fyrir framan tölvuna sína, rauður og sveittur og nagaði gulrót. Ég fékk mér sæti á bak við tölvuna mína og sneri henni þannig að hún var eins konar skermur eða skjöldur svo ég gæti borðað máltíðina sem ég hafði hlakkað svolítið til. En það er bara allt annað að borða máltíð í friði, óheftur af öllum snyrtireglum og fágun við neyslu matar en að hafa augu skrifstofumanns á sér við að reyna að narta í remólaðisamloku í yfirstæð á nokkurn veginn siðlegan hátt. Öll þau kurteisishöft sem það setur á mann að borða fyrir augum annarra. Máltíðin var því hálf geld, ég laumaði einu og einu stykki í hæfilegri stærð sem ég reif af kjúklingnum upp í munninn á mér, og að koma samlokunni sómasamlega niður í magann var átaksverkefni. Þetta varð engin veisla en þegar ég fór að sofa tólf tímum seinna var ég enn saddur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.