Ég er glaður yfir þessu góða veðri, öllu sólskininu, öllum bláa himninum, logninu og ég er líka glaður yfir nýju heyrnartólunum mínum. Á göngu minni til vinnu hlusta ég á Patty Smith sem lýsir bókarkynningarferð sinni til Parísar, fundinum með unga ritstjóranum frá Gallimard. Höfundur og forleggjari; hve oft hef ég ekki verið í þessum sporum, hve oft hef ég ekki furðað mig á þessum hlutverkum sem maður lendir í. Forleggjarinn sem gestgjafi og skal sjá til þess að höfundurinn hafi það gott og líði vel. Og höfundurinn, stundum hálfþreyttur á sinni stöðu sem höfundur á faraldsfæti, leikur hlutverkið: er til reiðu, ég geri það sem forleggjarinn segir svo bókin mín fái góða kynningu. Þannig leiðast þeir áfram, hönd í hönd, forleggjarinn og höfundurinn.
<Söguleg nútíð:>
Ég er kominn að skrifstofunni og slekk á Patty og án þess að hika læt ég eftir skyndilegri hugdettu minni að opna ekki skrifstofudyrnar, þótt ég haldi í hendinni á lyklinum sem ég hef veitt upp úr vasanum á svörtu buxunum mínum. Klukkan er ekki orðin átta og ég stend á skuggahlið götunnar, hér er svalt, ég flýti mér því yfir á gangstéttina hinum megin sem böðuð er sólskini og arka hiklaust í átt að kirkjunni sem er í fimm mínútna göngufæri. Þegar ég næ að malarlögðum kirkjustígnum mætir mér skærróma söngur inn úr kirkjunni. Drengjaraddir. Ég læðist varlega inn um opnar kirkjudyrnar og sé að upp við altarið stendur drengjakór og syngur. Stjórnandinn snýr bakinu í mig. Það eru engir aðrir inni í þessu rökkvaða guðshúsi og ég sest á aftasta bekk til að hlusta á sönginn. Yfirbragðið er hátíðlegt, gleðilegt og ég finn kunnuglegan trega fylla brjóst mitt. Fegurð andartaksins fyllir mig söknuði, ég hugsa um foreldra mína … Eftir stutta stund stend ég upp, kveiki á kerti og virði fyrir mér hvernig andvarinn frá opnum dyrunum fær logann til að flakka – eða er það samtengdur andardráttur drengjakórsins.
</Söguleg nútíð.>
Í gærkvöldi keyrðum við Davíð inn til Kaupmannahafnar til móts við Sus og mömmu hennar. Sus hafði boðið henni út að borða hjá Mielcke & Hurtikarl toppveitingastað í höfuðstaðnum og við feðgar bættumst í hópinn. Maturinn var frábær, en mér fannst einna skemmtilegast hvað ungi þjónninn var ótrúlegur. Ég grunaði hann um að vera að leika hinn fullkomna þjón sér til skemmtunar; hann þéraði, var gífurlega nákvæmur, alvarlegur og talaði sérkennilega skrautlega dönsku; flóknar setningar sem hann bar fram í furðulegu, þagnafullu tempói. Ég var alveg heillaður. Svona þjónn mundi ég vilja vera (auðvitað yrði ég aldrei svona góður) en ég mundi finna mig í þessu að gera þjónastarfið að listformi.