Espergærde. Hvínandi skapvonska.

Í annað sinn á tveimur mánuðum herjar á mig ægileg skapvonska. Ég hef allt á hornum mér. Ég er bara fúll inni í mér. Eiginlega vaknaði ég svona í morgun og án þess að skilja hvað kveikir slíkt þrumuveður innra með mér. Þegar ég er svona skapi fer ég að rifja upp misheppnuð samskipti mín við fólk.

Ég hef setið á skrifstofunni í dag, lesið yfir þýðingu mína og það gengur í sjálfu sér vel. Á fimmtudaginn sendi ég væntanlega þýðinguna frá mér – fari allt eftir áætlun – og þá get ég svo sem valið hvað ég tek mér næst fyrir hendur; ég er frjáls maður. Það eru tvær bækur sem mig langar að þýða, en ég þarf að sinna fleiru en bara þýðingum þótt þær séu aldeilis ágætar.

Allt gengur hægar en ég óska. Það er blýantsstubbur í vasanum mínum. Og ég spyr mig hvert verkefni mitt sé? Að senda frá mér texta sem hefur meira en eitt lag? Hvað vil ég? Að senda frá mér texta sem er betri en ég er; texta sem réttlætir allan þann tíma sem ég nota, eða vil ég færa sönnur á, með baráttu minni við orðin, að Guð er til?

Ég las viðtal við Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur rithöfund í TMM. Viðtalið var ágætt en ég hjó aðallega eftir einu. Þegar Sigurlín var spurð hvort hún væri trúuð svaraði hún: „Já, ég virðist hafa sterka trúarþörf… Ég var kristin … svo fjarlægðist ég trúna, vildi meira frelsi en fann mig svo aftur í hugmyndum um einhvern æðri mátt – það er lykillinn fyrir mig til að ná einhverri auðmýkt og ég losna við kvíða ímyndi ég mér að einhver sé með plan fyrir mig … Ég held ég hafi yfirfært trúna á listina og skáldskapinn og sæki þangað … huggun.“ Þetta þótti mér ágætt svar. Ég var nefnilega fyrir stuttu sjálfur spurður hvort ég væri trúaður. Ég vissi að maðurinn sem spurði var mikill efasemdarmaður… svo ég svaraði (til að gera samtalið betra) að ég væri gífurlega trúaður, ég væri heittrúarmaður. Ég fann að maðurinn kipptist við. En svo bætti ég við, bara til að gera samtalið enn erfiðara fyrir manninn, að ég tengdi Guð við þá upplyftingu sem sum listaverk miðla; þá óútskýranlegu reynslu þegar maður hrífst innilega af listaverki. Ég sá að blikið í augum mannsins slokknaði svo ég hellti hvítvín í glasið hans og beindi talinu að öðru. Þetta var ekki rétti áheyrandinn, ekki rétti maðurinn, til að fræða um áhuga minn á Guði og listinni. Er þetta kannski bara eitthvað sem ég á að tala um við sjálfan mig.
Á föstudaginn keyri ég suður til Chamonix.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.