Espergærde. Maðurinn er fluttur úr bænum.

Ég á að vera vinna núna en þess í stað vesenast ég, sendi tölvupósta til fólks sem ég þekki ekki sérlega vel, bý til lista (yfir ólíka þætti í tilverunni), ég undirbý að stofna súkkulaðigerð (Snæi og súkkulaðigerðin) þar sem ég get ekki keypt súkkulaði af ákveðinni tegund hér i Danmörku. Ég hringi til fólks sem hefur fengið lánaðar bækur hjá mér og innkalla þær (þetta eru bækur sem mig sárvantar), ég leggst á magann upp í sófa og sofna í tíu mínútur og vakna kolruglaður og veit ekki í nokkrar sekúndur ekki hvað ég heiti. Allt þetta hefur gerst á síðasta klukkutímanum.

Á skrifstofunni var svo heitt í dag að ég er ekki frá því að einhverjir málmar í tölvunni minni hafi bráðnað; frá henni láku gráir dropar niður á skrifborðið. Ég varð svo syfjaður í mollunni að ég neyddist til að vinna standandi til að halda mér vakandi við yfirlesturinn á þýðingunni sem ég ætla að senda í prófarkalestur á föstudag.

En nú held ég áfram að vinna. Góða nótt

ps. undanfarna daga hef ég skrifað dagbókina mína þegar langt er liðið á kvöld og það finnst mér alls ekki nógu gott. Ég er oft þreyttur og alls ekki eins vel upplagður og á morgnana.

pps Á hverjum morgni geng ég fram hjá húsinu sem er á myndinni hérna að ofan. Mér þykir þetta hús svo flott. Sá sem gerði upp húsið fyrir um það bil 10 árum er sá sami og á skrifstofuna sem ég leigi. Hann átti kranafyrirtæki; það er fyrirtæki sem leigir út byggingarkrana. Árið 2007 þegar allt var að springa í byggingarbransanum og stórkostlegur skortur var á byggingarkrönum, alla vantaði byggingarkrana, seldi hann fyrirtækið sitt og alla byggingarkranana. Hann eignaðist allt í einu milljarða og fyrir lítinn hluta af þessum peningum keypti hann og endurnýjaði þetta flotta hús. Flottasta hús bæjarins. Maðurinn er fluttur úr bænum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.