Espergærde. Lyklinum snúið

Ég lokaði skrifstofunni á eftir mér klukkan að verða fimm í dag og sneri lyklinum. Þetta var síðasti vinnudagurinn fyrir sumarfrí því ég keyri á morgun í suðurátt; hægt og rólega mjökumst við næstu vikurnar í átt til Ítalíu með viðkomu í Frakklandi. Næstu sex vikur stíg ég ekki fæti á skrifstofuna, minn kraumandi suðupott. Þótt margir lesendur Kaktussins taki nú andköf yfir dekurtilverunni (sex vikna frí!) sem ég lifi, segi ég mér til varnar að ég tek tölvu með mér. Það keyra tvö verkefni á meðan ég er á ferðinni. Samstarfsmenn mínir puða og svo fæ ég boltann aftur siðar í sumar og því veit ég að ég þarf af og til að setjast niður og vinna í þessum dúllulegu verkefnum mínum. En ég viðurkenni að sumarfríið mitt er langt, laust við stress, laust við hraða og áreiti. Í fríinu les ég, reyki vindla, drekk bjór og vín, borða kannski einn ís, fer í sjóinn, elda mat, baka pizzur, tek á móti gestum og væflast yfir engu. En ég legg áherslu á að ég sinni líka vinnuskyldum þótt þær séu ekki í forgrunni næstu vikurnar

Það verður því gaman að koma aftur heim til Danmerkur eftir sumarfrí og hella sér í vinnu. Því skemmtilegra verkefna saknar maður þegar maður er í löngu fríi og verkefnin verða enn ánægjulegri eftir þessa góðu hvíld. Ég hlakka til að fara að vinna aftur. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.