Göttingen. Sellerí er ekki ítalskt bókaforlag

Ég hef lengi sagt að sellerí sé frábærlega gott grænmeti. En ég er hræddur um að enginn hafi hlustað á raus mitt um sellerí (hvorki fjölmiðlar, fjölskylda né aðrir sem tilheyra almenningi) , enginn tekið mark á mér og ég held að ég hafi bara varla séð þetta grænmeti inni í ísskápnum heima hjá mér. Ég segi frá þessu hér vegna þess að ég las í morgun í dagblaðinu að sala á selleríi í Whole Food-matvöruverslunarkeðjunni bandarísku (í eigu Amazon) 3000 faldaðist í síðasta mánuði: Þetta las ég áður en ég settist upp í bílinn og brunaði af stað í átt til Frakklands.

Hvers vegna ætli standi á þessu? Ástæðan mun vera sú að frægðarkonan (ég veit ekki fyrir hvað hún er fræg! Ekki er hún leikkona? Söngkona?) Kim Kardashian sagði á twitter eða instagram að sellerí væri aðalgrænmetið, það væri algert æði; bæði hollt og kalóríusnautt. Svona er nútíminn: hleypur á eftir því sama og Kim Kardashian þótt hún sé bara 159 cm á hæð. Af hverju vill fólk vera eins og hún? Og hlustar á það sem hún segir. Hún hlýtur að vera bæði gáfuð og skemmtileg.

Útsýnið úr bílglugga á þýskum autobahn.

Í dag er ferðadagur. Við lögðum af stað um leið og Davíð var búinn í skólanum og keyrðum því að heiman klukkan 12:30. Númi kom ekki með og nú eru fimm vikur þangað til að við sjáum hann aftur. Mér fannst erfitt að kveðja hann en hann ætlar að vera með vinum sínum í húsi við Malaga í eina viku og fara svo af stað með tveimur öðrum vinum á interrail ferðalag í þrjár vikur um suður-Evrópu.

Bækurnar sem ég tek með í fríið, bæði á pappír og e-bækur. Tungumálin eru þrjú: íslenska, danska og enska.

En nú sit ég á brúnum stól á hótelherbergi í Göttingen þar sem við gistum í nótt. Við komumst ekki lengra en 600 km í dag. Í Þýskalandi er vegavinna út um allt og maður bíður í endalausum bílaröðum. En hér á hótelherberginu eru líka brún gólfteppi og brún gluggatjöld. Allt er í stíl.

ps. Ítalska forlagið sem mig minnti að héti sellerí heitir Sellerio editore.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.