Ég hafði hugsað mér að ganga upp í fjöllin hér í Chamonix og reyna að hafa aftur upp á veitingastaðnum milli barrtrjánna sem ég fann mitt um vetur þegar ég var hér í skíðafríi. Sennilega var það fyrir tveimur árum. Þar réði ríkjum ungur maður sem hafði byggt og plantað þessum veitingastað mitt inni í skóginum með þrjátíu útiborðum undir þrjátíu gulum sólhlífum. Þangað kom enginn. Eða þangað virtist enginn koma. Þegar ég hitti hann síðast sagði hann mér að hann byggi í Chamonixbæ en gengi hvern morgun með 12 egg, nokkrar gosdrykkjarflöskur og vatn í bakpoka upp til veitingastaðarins eftir skógarstígunum í fjallshlíðinni. Úr eggjunum 12 gat hann búið til þrjár eggjakökur og svo seldi hann vatn og gosdrykki til þyrstra fjallgöngumanna. Ef enginn kom eða átti leið hjá og keypti veitingar, gekk hann aftur niður í bæinn með eggin í bakpokanum sínum og eldaði eggjakökur handa sjálfum sér heima í litlu íbúðinni sinni. Þessa göngu, upp og niður fjallshlíðina með veitingar í bakpoka, stundaði hann allt árið um kring, á hverjum degi.
Í dag hafði ég sem sagt ætlað mér að reyna að finna stíginn til veitingamannsins, sem kallaði sig Marley, og heilsa upp á hann. Kannski mundi hann muna eftir mér frá því ég heimsótti hann síðast. Þá bauð hann mér að minnsta kosti að koma aftur til að spjalla við sig. Ég man að ég mátti alls ekki taka myndir, hvorki af honum né veitingaaðstöðunni.
Í dag ætlaði ég sem sagt að ganga uppeftir og freista þess að ég fyndi hann og veitingasöluna aftur. Sólin var hátt á lofti og lofthitinn er óvenjuhár hér í þessum litla alpabæ; meira en 30 gráður. Ég hafði séð á veðurspánni að búist var við þrumuveðri í dag. En þegar ég batt á mig skóna voru engin merki á himninum um yfirvofandi þrumur og eldingar og því gekk ég hratt og örugglega af stað. Ég veit að gangan upp er erfið, sértaklega í þessum hita og það er erfitt að rata á milli trjánna og auðvelt að villast. En öll svona eins manns ævintýri krefjast hugrekkis. Ég las það einu sinni að marathon-hlaup snýst fyrst og fremst um hugrekki hlauparans, að hann þori að hlaupa hratt og trúa því að hann nái í mark. Að hann þori að setja traust á getu sína
Ég var ekki kom langt upp í hlíðar fjallsins og ekki sérlega djúpt inn í skóginn þegar ég fann fyrstu dropana falla á handarbakið á mér og ég leit upp í himininn og sá að kolsvört ský hrönnuðust upp beint uppi yfir höfðinu á mér. Ekki liðu margar sekúndur áður en skyndilega kom þessi gífurlegi blossi sem lýsti upp himininn og skóginn. Örstuttu seinna bárust mér mjög háværar þrumur. Ég skynjaði að eldingarveðrið var rétt fyrir ofan mig og ég hljóp því eins og brjálaður maður niður fjallið. Það fór að hellirigna, vatnið sturtaðist niður og uppi á himninum fyrir ofan mig lýstust upp ógnandi skýin hvað eftir annað. Þrumurnar voru gífurlega háværar.
Ég var þeirri stund fegnastur þegar ég náði heim, rennblautur og dauðskelkaður. Ég geri sennilega aðra tilraun síðar í vikunni.