Chamonix. Ég gefst upp

Ég vaknaði í morgun við að ég heyrði fólk tala saman undir glugganum á svefnherberginu. Ég áttaði mig strax á að ég hafði sofið lengur en venjulega. Klukkan var rúmlega sjö og einhvern veginn var fannst mér ég hafa misst af morgninum. Ég vaknaði upp frá óþægilegum draumi og mér leið hálfilla þegar ég kom niður. Bæði Jesper, Henning og Sus voru vöknuð og byrjuð að borða morgunmat en ég átti erfitt með að hrista af mér draum næturinnar. Það sést alltaf svo greinilega á mér hvernig mér líður og það sést langar leiðir ef ég er ekki í jafnvægi. Það virtist þó enginn taka eftir að ég var óvenju þögull í morgun og eftir fyrsta kaffibollann og brauð með osti hafði ég aftur náð mínu fína jafnvægi. Allt gott.

Ég hef spilað tennis hvern dag hér í Chamonix og morguninn í morgun var engin undantekning. Það er ekki ónýtt að spila tennisvelli með útsýni til Mont Blanc/Monte Bianco. Enn hef ég ekki tapað leik; ég hef unnið hvern einasta leik sem ég hef spilað hér í Chamonix. Yo!

Í dag fór ég aftur upp í fjöllin í leit að Marley, veitingamanninum upp í fjöllunum. Og það er skemmst frá því að segja að ég fann manninn ekki og heldur ekki veitingastaðinn hans. Ég þvældist upp fjallshlíðarnar en þótt ég hafi leitað í þrjá klukkutíma fann ég ekki þennan fína veitingastað sem selur þrjár eggjakökur á dag. Ég hef gefist upp.

Þetta er síðasti dagur Hennings, söngkonunnar Signe og Vilmu dóttur þeirra. Á morgun leggja þau af stað til Póllands þar sem þau taka ferjuna til Bornholm (Borgundarhólms). Þau eiga stefnumót við bræður Signe. Við verðum því tvær fjölskyldur eftir hér í þessu fína húsi í Chamonix.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.