Hér í Chamonix gerist svo sem ekki margt. Það er sumarfrí og ég les, spila tennis og fer í langa göngutúra. Á morgun keyri ég áfram og yfirgef húsið hér í Chamonix.
Ég er duglegur að lesa. Ligg út í sólinni, í sófanum í stofunni og uppi í rúmi á kvöldin og les. Ég kláraði Kalak eftir Kim Leine (mjög góð bók), ég kláraði Hefndarengla eftir Eirík Jörundarson sem mér fannst ekki sérlega vel heppnuð og nú er ég að lesa Kniv eftir Jo Nesbø, meistara glæpasagnanna. Jo Nesbø er duglegur að skrifa og kann sitt fag. Ég hef ánægju af að lesa bækur hans.
Ég vona að Veröld (bókaforlagið) og Yrsa (skáldkonan) og Ragnar (glæpasagnahöfundurinn og lögfræðingurinn) haldi áfram með glæpasagnaverðlaunin Svörtu fjöðrina þrátt fyrir að árið í ár hafi kannski ekki verið sérstaklega gjöfult. Eiríkur P. Jörundsson hefur unnið afrek með því að skrifa 440 síðna glæpasögu. Það geta ekki allir, þetta krefst úthalds og þrautseigju. En mér þykir bókin, eða sagan, ekki sérlega góð, en það er allt annað mál. Ég man að við hjá Bjarti héldum einu sinni svona glæpasagnasamkeppni og urðum að vísa öllum handritum frá og veita engin verðlaunin því það kom ekkert handrit sem okkur fannst bitastætt. Það bárust töluvert mörg handrit og verðlaunin voru vegleg eða 1.000.000 ikr sem var há fjárhæð á þeim tíma. Auk þess höfum við náð samkomulagi við Bastei Lübbe í Þýskalandi (forlagi Dan Brown) um að gefa verðlaunabókina út á þýsku og borga töluvert fína fyrirframgreiðslu. Það var því eftir miklu að slægjast.
En hvað um það. Umboðsmaður Håkan Nesser sendi mér óvænt bréf áðan og spurði hvort ég vildi ekki vera svo góður að íhuga hvort ég vildi ekki stofna íslenskt forlag og gefa út bækur Håkans á Íslandi. Håkan er einn af þessum góðu glæpasagnahöfundum. Ég hef ekki hugsað mér að snúa aftur í íslenskan forlagsbransa svo svarið var nei. Þegar ég lít yfir sviðið finnst mér svo mikil deyfð yfir forlagsbransanum á Íslandi að ég get ekki hugsað mér að lifa lífi mínu þar. Forlögin sofa en lifna við í október, fara í einhvern hysteríu-ham í þrjá mánuði og falla svo aftur í ægilega langan svefn yfir vor og sumar. Ekkert gerist. Allt er á deyfðar-átómatík. Lægsti púls. Þótt bækur komi út á vormánuðum og jafnvel snemmsumars er engin kraftur yfir því, engin ákefð. Ekkert sætir tíðindum.