Cavalaire-sur-Mer. Stop talking

Í morgun, strax eftir fyrsta kaffibollann, gekk ég niður brekkurnar hér í bænum og niður á strönd. Það voru ekki margir á ferli. Nokkrir árrisulir skokkarar flýttu sér að ljúka hlaupum dagsins eftir götum bæjarins áður en sólin næði að komast svo hátt á loft að hitinn yrði óbærilegur fyrir skokkara. Ég hef gaman að fylgjast með hlaupurunum og skoða hvernig fólk ber limi sína. Sumir hafa fallegar hreyfingar og líða eftir götunum með áreynsluleysi og þokka en aðrir geta varla borið eigin líkamsþyngd og hengslast áfram með hræðilegum erfiðismunum. Það er raun að horfa á slíka frístundahlaupara. En hér er ég, í Cavalaire-sur-Mer, strandbænum við suðurströnd Frakklands.

Ég hafði eiginlega hugsað mér að setjast á kaffihús, fá mér einn kaffibolla og koma svo við í bakaríinu og kaupa frönsk flautubrauð fyrir þá sem enn voru ekki komnir á fætur og áttu eftir að borða morgunmat. Við fórum seint að sofa í gær. Hingað komu Ole arkitekt og Tina og borðuðu kvöldmat með okkur. Það voru tæmdar nokkrar vínflöskur svo sumir höfðu þörf fyrir að sofa lengi.

En á göngunni út til kaffihússins sá ég mann álengdar sem stóð á götuhorni og gaf sig á tal við þá vegfarendur sem áttu leið fram hjá honum. Ég gerði hálft í hvoru ráð fyrir að hann væri að sníkja peninga en ég furðaði mig samt aðeins á því að hann virtist hafa svo margt að segja við þá hann gaf sig á tal við. Þegar ég nálgaðist manninn sá ég á svip hans að hann mældi mig út og ég gerði ráð fyrir að ég yrði næsta fórnarlamb hans. Og ég hafði rétt fyrir mér. Um leið og ég kom í talfæri við manninn byrjaði hann að segja einhver ósköp á frönsku. Ég bað hann að stoppa og útskýrði fyrir honum á ensku að ég talaði því miður ekki frönsku. Ég sagði honum líka að ég skammaðist mín fyrir slaka frönskukunnáttu þar sem ég væri gestur í landi hans og mér fyndist skömm að því að ég gæti ekki tjáð mig á tungu innfæddra.

Mynd af morgni á hinni frönsku strönd.

Maðurinn var fljótur að skipta yfir í ensku og það var ekki bara einhver slark-enska heldur ægifögur Oxford-enska sem streymdi út um munninn á manninum eins og gljáandi súkkulaðifoss. En samt skyldi ég ekki hvað hann sagði – ég skyldi orðin en ekki hvað hann vildi segja mér með orðum sínum. Það var mér fullkomlega ómögulegt að átta mig á hvað hann var að tala um svo ég stoppaði hann í annað sinn.

„Ég skil ekki hvað þú ert að tala um, mér þykir það leitt.“
„Þú skalt ekki vera leiður, vinur minn,“ svaraði hann og klappaði mér á öxlina. Mér þótti þessi snerting ókunnugs manns heldur óþægileg, of kumpánleg, svo ég hlýt að hafa vikið mér undan því ég sá á svip mannsins að hann sá eftir þessu ónauðsynlega vinarhóti. En svo hélt hann áfram. „Ég er listamaður og þessi biðstaða mín hérna á götuhorni er hluti af listaverki.“
„Nú …?“
„Ég enda samskipti mín við fólk sem ég næ að kynnast með því að gefa því viðeigandi smákort og ég var eiginlega búinn að ákveða hvaða kort ég skyldi gefa þér áður en við byrjuðum að tala saman, ég sá á göngulaginu, sem er bæði afslappað en líka varkárt, hvað þú skyldir fá. Mér fannst fallegt að þú gengir með hendur í vösum …“ Hann þagnaði en það var samt eins og hann hefði ekki lokið máli sínu. Enn voru mörg ósögð orð sem biðu eftir að vera hleypt af stað frá tungu mannsins. Ég beið … En svo byrjaði hann að róta í svartri hliðartösku sem hann hafði hangandi yfir öxlina og dró upp lítið kort og rétti mér.

STOP TALKING

stóð skrifað með fallega prentuðu letri á dýrt og þykkt karton. Aðeins stop talking stóð miðjusett á þessum fína prentgrip

Ég þakkaði manninum fyrir mig og tók við kortinu. Ég er enn að velta fyrir mér hvað hann meinti með þessu smákorti og að það væri við hæfi að gefa einmitt mér þetta kort. Var það ég sem átti að hætta að tala eða fannst honum viðeigandi að gefa mér kortið svo ég gæti veifað því framan í hann, hann sem notaði svo mörg orð, eins og dómari gefur leikmanni fótboltaliðs gult eða jafnvel rautt kort fyrir óæskilega framgöngu.

dagbók

Ein athugasemd við “Cavalaire-sur-Mer. Stop talking

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.