Ég byrja á hinum góðu tíðindum. Í göngutúrnum upp á topp bæjarins – löng brekka sem liggur í hlykkjum eftir fjallshlíðinni – var ég skyndilega farinn að hlaupa upp brekkurnar. Þetta er auðvitað hreinn tortúr að hlaupa upp brattar brekkur í þessum sumarhita en ég réð bara ekki við mig. Ég hef ekki hlaupið af viti síðan í ágúst í fyrra þegar ég sleit hásin í hægri ökkla. Smám saman hef ég fundið að ég ökklinn styrkist og ég er í fínu formi. Þess vegna án þess að hugsa fór ég að hlaupa og hljóp glaður og móður upp brekkurnar. Ég held hreinlega að ég hlaupi aftur í dag.
Annars hefur miskunnsemin og umburðarlyndið verið tema hugans í dag. Á hinum kyrru morgunstundum rétt fyrir dögun ligg ég stundum vakandi og þá bregður hugurinn á leik. Miskunnsemin, hugaði ég og þá er ég ekki að hugsa um miskunnsemi-light eins og sýnd er á félagsmiðlum. Þar sem góðleikinn felst aðallega í að tala um eigin góðsemi, fórna engu sjálfur og benda öðrum á að sýna kærleikann í verki. Kærleikinn er langlyndur, hann er góðviljaður … kærleikinn er ekki raupsamur… Já.
En hvað um það, bráðum ríf ég tjaldhælana upp hér í suður-Frakklandi og keyri yfir til Ítalíu. Og með bráðum á ég við á laugardaginn. Við ætlum að stoppa í litlum og snotrum bæ norður af Flórens, Pistoia, þar sem ekki eru hjarðir ferðamanna í eirðarlausri leit að afþreyingu. Pistoia er kölluð litla Flórens því þar eins og í Flórens, er fjársjóður alls kyns fallegra hluta sem svo gaman er að horfa á.