Cavalaier-sur-Mer. Við Jónas H.

Mér varð eiginlega fyrst af öllu hugsað til Jónasar Hallgrímssonar þegar ég rúllaði aftur á bak niður steintröppurnar hérna í húsinu með sundlaug í Frakklandi. Og ég hélt áfram að hugsa um Jónas þegar ég lá við neðstu tröppuna, fastur undir eldhúsborðinu sem ég var að bera niður á næstu hæð. Ég var þó hvorki fótbrotinn, fullur né dáinn. Ég var ekki einu sinni í fátækrakytru með mjóum trétröppum, ég hef ekki ort ljóð, en ég er íslendingur í útlöndum. Við eigum sennilega ekki annað sameiginlegt, Jónas og ég, en að vera útlendingar í útlöndum. En samt var það hann, sem pabbi segir að sé frændi minn, sem ég hugsaði um.

Það var óheppilegt að gestirnir, vinir Lars og Piu, voru komnir og máltíðin átti að fara fram við borðið sem ég hafði tekið að mér, ásamt gestinum JC, að bera niður. Allt samkvæmið féll í skuggann af þessari byltu, blóðinu, og rifnu fötunum. Mér fannst ég þó ekkert meiddur og hélt því áfram að bera borðið þegar mér hafði verið bjargað undan því. En svo gerist það, eins og svo oft áður þegar ég lendi í uppnámi eða skyndilegri líkamlegri áreynslu, að ég fölna upp og ég verð að setjast niður og jafnvel leggjast svo ekki líði yfir mig. Og ég átti erfitt með að rífa mig upp úr svimanum og ógleðinni og yfirliðinu. En eftir 15 mínútur var ég aftur samur maður. En hálf slappt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.