Pistoia. Þrjár myndir

Ég kann vel við mig hér í Pistoia (80.000 manna bær norðurvestur af Flórens), bærinn er fallegur, líflegur og rólegur á hinn góða hátt. Ég hef verið sérstaklega duglegur að fara inn í allar þær mörgu, fallegu miðaldakirkjur sem hér eru. Þar er aldrei neinn. Maður ráfar einn um í myrkrinu og þögninni. Þær eru dimmar kirkjurnar hér, dulúðugur og fallegar, allar mjög skreyttar málverkum, höggmyndum og styttum. Dvölin hefur kennt mér að mig langar að eignast Maríu-málverk, bara lítið; góðleikinn og fegurðin sem streymir frá Maríustyttum og Maríumálverkum hefur verkað sterkt á mig. Í gær tók ég mynd af holu í vegg á borgarvirkinu þar sem einhver hafði komið Maríulíkneski fyrir, blómum og krossi og málað bláan bakgrunn. Ég hef svo gaman af þessari rómatísku fegurð en ég heyri utan af mér að það sé komið úr tísku og í staðinn þykir það dálítið cool að dásama ömurleikann, niðurníddar verslunarmiðstöðvar í voluðum stórborgum eða annan ljótleika. Maríumynd á víst ekkert erindi í slíkum heimi.

Ég tók aðra mynd í gærkvöldi þegar ég gekk eftir götum bæjarins (ég átti erindi). Fyrr um daginn hafði ég hitt bareiganda, ungan dreng sem hafði búið til ansi góðan hádegismat fyrir okkur – ég fékk grillaðan kolkrabba – á litla veitingastaðnum hans. Hann sagði mér að hann kæmi frá Pistoia og hefði búið í bænum allt sitt líf. Hann benti glaður á mynd af fótboltaliði bæjarins, sem hékk laumulega í einu horni staðarins, mynd frá árinu 1983, einmitt eina árið sem liðið hafði spilað í efstu deild ítalska fótboltans. Í liðinu var enginn annar en Massimiliano Allegri (fyrrverandi þjálfari Juventus). Veitingamaðurinn var stoltur af bænum sínum og þegar ég rifjaði upp samtal mitt við þennan unga, geðþekka mann ákvað ég að taka mynd af bænum, nákvæmlega á þeim stað þar sem ég stóð þegar samtalið kom upp í huga mér. Ég sneri mér í 90 gráður og tók mynd. Hér er hún. Pistoia, þann 14. júlí 2019 klukkan 19:24.

Ég hef komið sjálfum mér á óvart þegar ég sest á kaffistaðina hér í bænum til að fá mér morgunmat. Hér fær maður bara gott kaffi og staðirnir eru alltaf þéttsetnir. Alls staðar er mikið úrval af kökum og öðrum hveitibakstri. Þar sem ég er ekki mikið fyrir sætmeti, borða ég sjaldan kökur eða tertur eða kex. En í þessari stuttu dvöl hef ég í tvígang pantað mér nutella-croissant með morgunkaffinu. (Fyrstu bitarnir eru himneskir en í bæði skiptin hef ég þó séð eftir því að setja þetta bakkelsi ofan í mig því mér verður hálfflökurt af öllum sykrinum.)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.