Ég var eiginlega sofnaður þegar Númi, sem er á interrailferðalagi í Suður-Evrópu með vinum sínum (nú staddur í Nice) sendi mér SMS. Hann hefur verið veikur og leitaði sér læknishjálpar í gærkvöldi. Hann vildi láta mig vita hvernig gengi. Ég sá um leið og ég opnaði SMSið frá Núma að mér hafði líka borist óvæntur tölvupóstur frá kærum félaga. Mér þótti satt að segja tíðindi (heimur minn er lítill) að fá bréf frá þessum góða vini mínum svo ég ákvað að opna póstinn samstundis. En slíkt geri ég annars aldrei þegar ég er lagstur til hvílu. Ég læt tölvupósta bíða næsta dags.
Satt að segja brá mér í fyrstu við lesturinn, eins og ég hefði verið afhjúpaður – þannig er mín mjög svo kvika samviska – en þegar ég hafði lesið bréfið til enda var ég í nokkru uppnámi. Ég breiddi sængina ofan á mig og lokaði augunum en ég fann að ég átti erfitt með að sofna. Furðulegt hvað þetta stutta bréf, sem að nokkru leyti var skrifað í stríðni og hins vegar falleg kveðja vakti upp margar hugsanir – gamlar og nýjar. „Þú ert flókin sál, Snæi min,“ segði Kalman við mig þegar við hittumst í París nýlega. Og það er líklega rétt. Ég kemst auðveldlega í uppnám ef fólk er gott við mig.
Í morgun, áður en við ókum aftur af stað í suðurátt, burt frá Pistoia, settumst við á fínu kaffistéttina þar sem við höfum vanið komur okkar síðustu morgna. Kaffið er gott og starfsfólkið tekur vel á móti okkur. Þar sem ég sat þarna tók tvær myndir sem mér fannst viðeigandi að ljúka veru mína.
Fyrsta myndin var af fimm nunnum sem ég sá koma gangandi eftir göngugötunni rétt við kaffistaðinn minn. Þegar ég sá þær nálgast ákvað ég að standa á fætur og taka mér stöðu fyrir framan þær og smella af mynd. (Ég þóttist vera að taka yfirlitsmynd af bænum en myndin mislukkaðist og ég neyddist til að taka mynd aftan frá). Þessar nunnur höfðu nefnilega vakið athygli mína tvisvar sinnum á meðan ég dvaldi í bænum. Í einni af þeim kirkjum sem ég heimsótti, sátu nunnurnar á kirkjubekk, allar djúpt sokknar í bænir sínar. Ég var eignlega hugfanginn af því hvað þær virtust einlægt helga sig bæninni. Í morgun vöktu þær aftur athygli mína því þegar sömu nunnurnar fimm komu gangandi eftir göngugötunni mættu þær tveimur miðaldra konum mitt á götunni. Ég tók eftir að þegar nunnurnar urðu kvennanna tveggja varar, ljómuðu andlit þeirra í slíkri gleði að það var eins og þær hefðu hitt einhvern fornvin eftir langan aðskilnað. Sjaldan hef ég séð slíka fagnaðarfundi. (Internetið er svo slappt hér að ég get ekki sett myndina inn)
Hin myndin er af gestum kaffistaðarins. Okkur var svo vel tekið að mér fannst rétt að ég tæki eina mynd af fólkinu sem sat hvern morgun og drakk kaffið sitt með okkur.
ps. Við náðum ekki svo langt í dag. Keyrðum í tvo tíma til Paciano þar sem við heimsóttum Jesper og Helle