Vico del Gargano. Vínkaupmaðurinn

Það er laugardagur hér í La Chiusa og það breytir engu í lífi mínu. Dagarnir eru hver öðrum líkir. Ég vakna eftir góðan nætursvefn til að setjast út á svalir með kaffibollann minn og hlusta á engispretturnar vakna; þær geta verið háværar. Í morgun spiluðum við ekki tennis. Unglingurinn okkar; Davíð, var ekki tilbúinn; hvorki til að vakna né að stunda líkamlegt erfiði snemma morguns. Ég sat því bara hér út á svölum og las þar til allir voru tilbúnir að keyra upp í þorp, Vico del Gargano, og kaupa trélím. Prófasturinn (fatahengið) er brotinn og ég hef þá metnaðarfullu áætlun að líma hann saman.

Mynd af mér á svölunum í La Chiusa.

Ég þurfti líka að ná mér í bjór og vín. Ég rölti því til vínkaupmannsins í þorpinu. Bjórúrvalið hjá honum er ekki til að hrópa húrra fyrir og þegar ég fann engan bjór sem mig langaði í og sneri mér frá bjórhillunni varð vínkaupmaðurinn ægilega leiður og vildi endilega selja mér einhvern lager-bjór frá Sardeníu sem hann sagði að væri alveg himneskur. Ég vissi vel að þetta var ekki bjórtegund sem ég er sólginn í, en ég lét undan manninum til að gera hann glaðan og keypti þrjár flöskur.

Vínkaupmaðurinn vildi líka ræða við mig heimspekileg vandamál, þar sem sjaldan koma útlendir gestir í búðina hans, og fáir í þorpinu hafa áhuga á samtali af þessu tagi. Efnið sem hann tók upp var vandi mannsins til að takast á við heiminn, fyrr og nú. Því miður er ítalskan mín ekki nógu góð til að ég geti tekið þátt í slíku samtali þannig að takmarkaðar gáfur mínar njóti sín. Ég sagði honum því bara að himininn væri blár, grasið grænt og það væri bæði stutt út í skóginn og niður til strandarinnar þaðan sem við stóðum.

Í dag hef ég verið þrjár vikur í fríi – eða hvað maður kallar þetta lífsform að þvælast milli suðlægra staða – og nú eru tæpar þrjár vikur þar til ég sný nefinu í norðurátt og rölti af stað heim á leið.

ps. Mér tókst að mála pizzaofninn í gær. Það vekur alltaf gleði hjá mér þegar maður er búinn að afreka slíkt lítilræði.

Pizzaofninn, skjannahvítur eins og nýfallinn snjór á Grænlandsjökli

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.