Vico del Gargano. Villisvínin

Sunnudagur, sólardagur í Vico, ekki sá fyrsti. Úti er nokkuð heitt en það kemur ekki í veg fyrir tennisleik í morgunsárið. Ég ætlaði að taka mynd frá tennisvellinum sem er svo gervigrænn undir hinum bláa himni að hreinni liti er ekki hægt að fá á myndavél. Grænn, hvítur (tennislínurnar) og hinn blái himinn.

Ég sá í morgun þegar ég vaknaði og leit yfir svalahandriðið að villisvínin hafa verið hér í nótt. Rétt fyrir neðan húsið er stórt brómberjatré og það er fullt af berjum nú. Villisvínin eru sólgin í brómber og þau hoppa upp í greinarnar, bíta sig föst og hrista þannig tréð svo berin falla á jörðina. Síðan róta þau í jörðinni í leit að berjum. Ég hef bara einu sinni séð villisvín hér við húsið, það var móðir með nokkra villisvínsunga en þau hurfu hratt inn í myrkrið. Ég var að velta fyrir mér að reyna að vaka í nótt til að sjá hvort villisvínin komi aftur.

Ég vaknaði í nótt við að SMS-skilaboð komu inn í símann hjá mér. Ég hafði gleymt að slökkva á símanum í gærkvöldi. Klukkan var hálfþrjú og auðvitað niðdimm nótt. Ég satt að segja glaðvaknaði við pling-tóninn og ég átti erfitt með að sofna aftur eftir að hafa lesið skilaboðin. Ég bylti mér í rúminu. Ég hlustaði á viftuna sem snýst án afláts inni í svefnherberginu þegar mjög heitt er. Það eru aukalæti í viftunni – ég komast að því í morgun að nokkrir hlutir á viftunni voru lausir og ég skrúfaði þá fasta – ægilegt skrölt sem líka hélt fyrir mér vöku. En þarna mitt í baráttunni við að sofa birtist mér allt í einu mynd af suðusúkkulaði frá Síríus, tvöfaldri plötu. Umbúðirnar voru nánast einskonar dagblað. Mér fannst furðulegt að fara að hugsa um þessa súkkulaðiplötu en einmitt þessi súkkulaðitegund beið mín alltaf á náttborðinu hjá ömmu á Akureyri þegar ég kom þangað í heimsókn. Mér þótti alltaf hátíð að fá þessa súkkulaðigjöf.

Og mitt í þessum vangaveltum um suðusúkkulaði æsku minnar fór ég að hugsa um hvað ung börn í dag dreymir um. Hvað væri það æðislegasta sem gæti hent barn í dag? Ég held að mig hafi alltaf dreymt um að finna fjársjóð. Sjálfur gróf ég niður fjársjóð þegar ég var níu ára til að uppfylla drauma barna framtíðarinnar; svo að þau ættu möguleika á að finna fjársjóð. Fjársjóðurinn var allt uppáhaldssælgæti mitt; Lindubuff, Mars, og lakkrísrúllur. Þessu hafði ég safnað saman í vindlakassa auk þess setti ég svolítið af peningum sem ég átti. Þennan fjársjóð gróf ég niður þar sem nú stendur hús Bræðranna Ormsson við Lágmúla. Fjársjóðskort teiknaði ég líka en ég man ekki hvar ég faldi það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.