Vico del Gargano. Gestapenni 2

Það er orðið æ algengara þegar ég fæ bréf eða hitti fólk að viðmælendur eða bréfsendendur nefna, að það sem sagt er við mig megi ekki birtast á Kaktusi. Ég get ekki annað en flissað með sjálfum mér, því það er eins og fólk haldi að lesendahópur Kaktusins sé svo gífurlega stór. En það er þó einn félagi minn sem nefnir nánast í hverju því bréfi eða spjalli sem við eigum saman að ég megi endilega minnast á samskipti okkar á Kaktusnum. Í gær fékk ég bréf frá þessum vini mínum, forleggjaranum. Með henni fylgdi valin dagbókarfærsla júnímánaðar. Nú hefur myndast sú hefð að við veljum einu sinni í mánuði, hvor fyrir sig, eina færslu úr dagbókum okkar og lesum upphátt; ég úr mínum Kaktus og forleggjarinn vinur minn úr dagbókinni sinni sem er skrifuð með penna á þykkan „dagbókarpappír“ eins og vinur minn kallar þessa pappírstegund. Ég er ekki hrifinn af þessari þykkt. Nú höfum við ekki hist síðan í maí svo það var þess vegna sem dagbókarfærslan barst með pósti.

Dagbókarfærsla frá 30. júní 2019 og ég var satt að segja hvattur til að birta hana hér á kaktusdagbókinni. Hér er því gestapenni:

„Reykjavík 30. júní 2019
Já, Reykjavík, skrifa ég enn efst í dagbókarfærslu dagsins. Mér hefur enn ekki tekist að koma mér burt úr bænum þótt ég hafi lofað sjálfri mér því í næstum heila viku. Ég kem mér ekki af stað. Ég hef áhyggjur af þeim bókum sem þurfa að komast í prentun í ágúst en ekki hjálpar það að ég hangi hér í bænum. Á morgun skal ég af stað. Stykkishólmur? Er það ekki góð hugmynd?

Í hádeginu í gær hafði ég ætlað á orgeltónleika í Hallgrímskirkju. Þar hélt aðalorgelleikari dómkirkjunnar í Stokkhólmi tónleika. Hádegistónleikar eru mitt uppáhald því þá er ég svo vel vakandi, hátt uppi, full af orku og alls ekki komin í mig þessi síðdegis- og kvöldsyfja sem er farin að hrella mig síðustu mánuði. Tæpum tveimur tímum áður en tónleikarnir hófust lagði ég af stað, mér fannst ég kannski svolítið of fínt klædd fyrir þessa látlausu tónleika en ég nennti ekki að gefa því of mikinn gaum. Á leiðinni staldraði ég við á Mokka – þangað fer ég þó aldrei – og fékk mér kaffibolla. Ég furðaði mig á að ég þekkti engan þar. Eru allir vinir mínir komnir út úr bænum, hugsaði ég, eða flúnir land? Það væri heldur ekki óvitlaust að fara til útlanda; mig langar alltaf til Baskalands eða Bretagne.

Það var svo sem engin ástæða til að staldra lengi við á Mokka, mér hefur aldrei líkað Mokka því staðurinn minnir mig alltaf á Eden með allar sínar amatörmyndir eða Listamannaskálann án þess að hafa nokkurn tíma komið þangað. Í stað þess að staldra við á þessu eymdarkaffihúsi gekk ég hægum skrefum upp Skólavörðustíginn og var eiginlega komin í hálfvont skap þegar ég sá „The Holy Fool“ koma gangandi á móti mér. Ég gat ekki hugsað mér að eiga merkingarlaust samtal við skáldkonuna svo ég skaust inn í einhverja keramikbúð sem selur leirmuni fyrir ferðamenn. Þar tók á móti mér hressileg afgreiðslukona. Ég flýtti mér að segja að ég væri á flótta, ég ætlaði ekkert að kaupa. Það þótti henni skemmtilegt og bauðst til að lána mér dulbúning, sólgleraugu og hárkollu en ég afþakkaði.

Þegar ég nálgaðist Hallgrímskirkju varð mér ljóst að fólk þyrptist á tónleikana, við kirkjuna var miklu meira fjölmenni en ég hafði ímyndað mér. Satt að segja kirkjan troðfull af fólki. Ég skimaði yfir hópinn og sá í eini svipan þrjá karlmenn sem ég get með réttu kallað bassaleikara, þeir sáu mig ekki og virtust heldur ekki sjá hvern annan. Ég tvísté í kirkjuganginum og reyndi að gera upp við mig hvort ég ætti að reyna að finna sæti eða snúa við. Ég hafði í hreinskilni sagt hlakkað til tónleikanna en ég var bara ekki í skapi til að sitja þröngt milli sumarsveittra tónleikagesta. Ég ákvað því að snúa við. Ég var ekki einu sinni komin út úr kirkjudyrunum þegar ég mætti þessum geðsjúklingi sem ég man ekki hvað heitir og er sífellt að senda mér handrit. Ég hef ekki litið í síðasta handritið sem hann sendi og það er sennilega liðinn langur tími síðan mér barst það. Ég veigra mér við því að endursenda honum handritið því ég veit hvað bíður mín. Löng símtöl, reiði, grátur og þagnir. Og þarna stóð hann og hafði komið auga á mig og ég sá á honum að hann var tilbúinn að hremma bráð sína. Ég vissi ekki hvað ég átti til bragðs að taka en af hreinni eðlisávísun – löngun til að lifa – sagði ég mjög ákveðin og án þess að nema staðar. „Ég er að flýta mér, fyrirgefðu, ég hef ekki tíma til að spjalla … ég þarf að drífa mig … ég gleymdi …“ og svo rauk ég á hendingskasti niður Skólavörðustíginn. Ég var sannfærð um að hann kæmi á eftir mér, þessi maður sem hafði svo stóra drauma um að verða skáld. Ég þorði ekki einu sinni að líta um öxl, ég hálfhljóp og nam ekki staðar fyrr en ég var komin inn í íbúðina mína og búin að læsa á eftir mér.

Eiginlega er þetta merki um að ég skuli, ekki síðar en á morgun, yfirgefa höfuðborg Íslands, Reykjavík og koma ekki aftur fyrr en taugaþenslan, taugastrekkingurinn er horfin. Hvar er sálarró að finna? Hvar fæ ég smyrsl á sálina? Ég nenni ekki lengur að vera í Reykjavík, ég nenni ekki lengur að vera hundelt af sjálfri mér og öðrum!

Ég settist niður í forstofunni, fór úr fötunum, klæddi mig í morgunsloppinn minn og smeygði mér í þykku ullarsokkana. Nú líð ég hljóðlaust um íbúðina eins og ég sé ekki til.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.