Vico del Gargano. Hvar ertu?

„Hvar ertu? … Ég á erindi við þið! Ég hef gengið hvern morgun um átta leytið eftir þinni þekktu gönguleið (eða það sem ég held að sé gönguleið þín til vinnu), en ég hef bara ekki rekist á þig í margar vikur.
Ertu fluttur?
Mér varð hugsað til gamla versins í Markúsarguðspjalli þegar örvæntingin var farin að sækja á mig: ef þér biðjið Guð um eitthvað og treystið því að þér munið fá það munu óskir þínar verða uppfylltar (ég man þetta ekki orðrétt, en svona er hugsunin).
Satt að segja var draumur minn um að hitta þig á förnum vegi svo heitur að ég fór í hreinskilni sagt að biðja til Guðs á göngu minni.
Einu sinni var ég svo örvæntingarfullur í Amsterdam eftir viðskiptafund að þegar ég vaknaði næsta morgun (þetta hef ég ekki sagt neinum) gekk ég út, sveimaði í kringum hótelið sem ég bjó á og endurtók hálfhátt við sjálfan mig í sífellu: ‘Ó. þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt ber heimsins syndir. Miskunna þú oss.’
Þú heldur örugglega að ég sé genginn af göflunum með allt þetta trúarraus, en þetta sækir á mig þegar ég á í vanda. Það var nefnilega út af þessum vanda sem mér varð hugsað til þín og vonaði að ég ætti eftir að rekast á þig á morgungöngu. Ég skal ekki hrella þig, ég veit að við erum bara rétt rúmlega málkunnugir, en mér hefur alltaf sýnst að þú skildir hvað ég var að fara þegar við hittumst á götu og áttum spjall saman. En fyrirgefðu mér þetta. Ég vona að þú sért ekki fluttur og að ég hitti þig bráðum hressan á göngu. Þú manst að ég er búinn að losa mig við hundinn.“

Það er félagi minn frá Espergærde sem skrifar svo. Stundum veit ég ekki hvað er mikil alvara á bak við skrif hans. Það er alltaf glettnisglampi í augum hans þegar hann fer á sitt trúarflug. Hann hefur gaman af því að fá áhugasöm eyru.

En hér er ég enn, í mínum góða ólífulundi. Ég er spurður að því – ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum á einni viku af ólíkum einstaklingum – hvort ég sé glaður, glaður í suðrinu eins og einn bréfritari orðaði það. Kannski virka ég eitthvað þungur hér í hinni ítölsku sól en svo er ekki. Ég er léttur eins og fjöður, fjörugur eins og kálfur að vori, fullur af orku svo ég treysti mér til að flytja fjöll. Ég hef bara ekki mikinn tíma til að skrifa á Kaktusinn. þótt skrifin veiti mér oftast gleði. Hér er Sandra og Steinþór með Öglu og Styrmi. Davíð er hér og Sus og maður sinnir sínum. Maður notar tíma sinn í að hlúa að börnum og barnabörnum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.