Vico del Gargano. Að vera ekki allra.

Ég las grein í vefblaðinu Stundinni í gær, skrifaða af rithöfundinum Hermanni Stefánssyni og fjallar meðal annars um bókina White eftir Bret Easton Ellis. Ég hef hvorki lesið þessa bók né aðrar bækur eftir ameríska rithöfundinn. Hann hefur aldrei vakið áhuga minn. Ég sá kvikmyndina American Psycho á sínum tíma og þótti ekki sérlega mikið til hennar koma. En hvað um það, greinin hans Hermanns þótti mér góð.

Nú veit ég að Hermann er ekki allra og hef ég fengið aðfinnslur fyrir að hæla rithöfundinum – sem ég hef gert nokkrum sinnum hér á þessum vettvangi. Hermanni virðist einhvern veginn hafa tekist að fara skakkt ofan í suma samferðarmenn sína og er ég sakaður um að vera blindur á þau klækjabrögð Hermanns að sveipa sig litríkri kápu hins skarpa gagnrýnanda og glögga samfélagsrýnis og sjá ekki að undir þessu fagra yfirborði er ekki annað en nöldursöm sál. En ég læt slíkt píp sem vind um eyru þjóta. Og mæli sem sagt með þessari gein.

Það eru fáir Íslendingar sem skrifa reglulega greinar á internetinu sem mér þykir skemmtilegt að lesa og því eru skrif Hermanns kærkomin. Guðmundur Andri Thorsson er snillingur í að skrifa stuttar greinar – þó finnst mér stjórnmálamaðurinn Guðmundur Andri ekki eins upplyftandi og rithöfundurinn og bókmenntaáhugamaðurinn GAT. Einu sinni skrifaði rithöfundurinn Bragi Ólafsson reglulegar greinar það þótti mér stundum ágætt að lesa, og það kemur fyrir að mér þyki skrif Eiríks Arnar Norðdahl skemmtileg og hann er ekki vitlaus. Hann hefur þó tilhneigingu til að vera ansi langorður um einfaldar hugsanir. Endursagnir á bíómyndum sem hann sér og bókum sem hann les höfða ekki sérlega til mín. En sem sagt Hermann skrifar skemmtilega og mér finnast viðhorf hans athyglisverð.

Nýr dagur í La Chiusa. Tennisleik var aflýst í morgun. Mótherjar mínir treystu sér ekki að spila í hitanum mér til nokkurrar armæðu og því lagðist ég bara út í sólina og las bókina sem ég byrjaði á í gær: ég man ekki hvað hún heitir eftir tyrkneska rithöfundinn sem ég man ekki hvað heitir. En bókin byrjar vel. Yo!

Auður tennisvöllur. Enginn mættur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.