Vico del Gargano. Afmæli og ný bók

Næst síðasti dagur okkar í La Chiusa og eins og venjulega þegar ég settist út á svalir í morgun með kaffibollann minn, hrökkbrauð með osti og horfði yfir dalinn með öllum sínum silfruðu ólífutrjám gat ég ekki annað en dásamað þessa náttúru hér. „Þetta er nú falleg sjón, Snæi minn,“ sagði ég við sjálfan mig. 30. júlí, hugsaði ég svo og mundi að J.K. Rowling á afmæli á morgun, hún verður 54 ára. Ætli hún haldi afmælisveislu? Nú er hún flutt frá Edinburgh og flutt út í sveit til Killiechassie þar sem hún hefur keypt stóra höll og girt svæðið í kringum höllina af með hárri gaddavírsgirðingu, sett upp hágæða öryggiskerfi og hefur launaða vaktmenn allan sólarhringinn. Þetta er gjaldið fyrir að vera frægur og ríkur.

Í morgun byrjaði ég líka á bók Eiríks Stephensens, Boðun Guðmundar. Bókin kom víst út snemmsumars. Ég veit ekkert um bókina og fátt um höfundinn annað en að ég held að þetta sé bróðir hennar Siggu Steinu. Ég hef lesið nokkur viðtal við höfundinn, hann virðist vera viðkunnanlegur náungi. Ég las líka einhvers staðar að höfundinum tækist áreynslulaust að vera mjög fyndinn. Það líkar mér, það er að segja áreynslulaus fyndni finnst mér skemmtileg. Ég veit ekki hvort honum tekst að vera fyndinn án þess að reyna á sig en það verður að koma i ljós. En nú ætla ég að bruna í gegnum bókina í dag og vonandi verð ég búinn á morgun. Þetta er ekki löng bók.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.