Vico del Gargano. Ísland fyrir Íslendinga.

Ég las í fréttum að meira en áttatíu prósent þjóðarinnar er andsnúin eða vill að minnsta kosti setja skorður við að erlendir aðilar geti eignast jarðir hér á Íslandi. Ísland er fyrir Íslendinga, er sem sagt niðurstaðan. Forsætisráðherra hefur áður sagt að hún vilji setja lög sem setja skorður við kaup auðmanna á íslenskum jörðum. Útlendingar sem eiga meira en ákveðna fjárhæð í banka (svo þeir teljist auðmenn) fá sérstakar takmarkanir við jarðarkaupum á Íslandi. Já, ég get ekki sagt annað en að ég eygi ákveðinn tvískinnung hjá minni góðu þjóð.

Ég las bók Eiríks Stephensens, Boðun Guðmundar, í gær og í morgun. Þetta er ekki löng bók og fljótlesin. Þetta er nokkur ýkjusaga og með ærslum en sú bókmenntagrein er ekki alveg í uppáhaldi hjá mér. Guðmundur Andri Thorsson, sem er enginn aukvisi þegar kemur að greiningu á bókmenntaverkum, hefur látið hafa eftir sér að bókin sé „býsna raunsæ um leið og hún er fullkomin fantasía; bráðfyndin og sorgleg í senn, hugljúf og mjög umhugsunarverð.“ Þetta hlutlæg greining sérfræðingsins. En býsna raunsæ? Ég verð víst að leyfa mér að setja spurningarmerki fyrir aftan þá fullyrðingu sérfræðingsins. Í mínum huga var bókin ekki sérlega raunsæ. En Eiríkur getur að minnsta kosti verið stoltur af lipurlegum texta og að hafa komið þessari bók í gegnum nálarauga bókaforlaganna, það þarf töluvert til.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.