Á norðurleið og sexhundruð kílómetrar að baki eftir akstur dagsins og nú erum við hér enn á ný í ítölsku borginni Modena. Modena er vinaleg, lítil, en lífleg ítölsk borg. Hér er fallegt.
Fyrir tveimur árum borðuðum við hjá Massimo á veitingastaðnum hans hér í Modena, sem skyndilega hefur fengið titilinn besti veitingastaður í heimi. Numero uno. Massimo er það sem á íslensku kallast: svolítill ruglukollur. Ég er ekki ókunnur tilfinningunni. Lífið keyrir áfram og maður lendir í nýjum aðstæðum sem maður heldur að maður skilji en það kemur í ljós að maður hefur misskilið að minnsta kosti helminginn og allt í einu er maður kominn í aðstæður sem í mínu tilfelli, og hjá Massimo, reyndust miklu betri en maður hafði reiknað með og kannski hafði átt skilið. Svona leikur lífið stundum við mig og stundum við Massimo. „Snæi, þú ert hamingjuhrólfur,“ var sagt við mig fyrir mörgum árum. Ég varð glaður þegar ég heyrði þetta sagt, og ég gladdist yfir því að það var rétt. Og enn í dag lít ég á mig sem hamingjuhrólf.
Að minnsta kosti rekur Massimo nú besta veitingastað í heimi 30 árum eftir að hafa verið fullkomlega örvæntingarfullur ungur maður í New York, og 20 árum eftir að hafa opnað veitingastað í Modena sem enginn virti viðlits. Matseðilinn skildi enginn, enginn Ítali með sómatilfinningu borðaði hjá Massimo. Fyrstu árin eftir að Massimo opnaði Osteria Fransescana var staðurinn mannauður kvöld eftir kvöld. Enginn borðaði hjá hinum unga kokki. Það var alger tilviljun (þrumur, eldingar og regnflóð á hraðbrautinni) að stærsti og virtasti veitingahúsagagnrýnandi Ítalíu lenti inni á veitingastaðnum hans Massimo og skrifaði frægan dóm um staðinn í víðlesnasta dagblaði Ítalíu. Og eftir það fékk veitingahúsið frægð sína sem hefur þróast jafnt og þétt í átt að heimsfrægð síðustu árin.
Í dag á leið minni til AirBnB-íbúðarinnar hér í Modena, þar sem ég gisti tvær nætur, mætti ég svo Massimo sjálfum á þröngri götu. Hann kom spígsporandi í kokkajakka á móti okkur. Hann var glaður, gott ef hann flautaði ekki einhvern lagstúf, kannski Paolo Conte-lag. En sem sagt þegar við mættumst á götunni sagði hann „hi guys“ (hann hefur alið daga sína í New York) og við svöruðum kurteislega „hi“. Við vorum ekki tilbúin, og vorum bara öll einhvern veginn alltof sein að bregðast við þessari glaðlegu opnun á samskipti milli fjögurra einstaklinga á þröngri götu í Modena. Okkur langar að borða hjá honum aftur, en það er ómögulegt að fá borð og ég átti auðvitað að nota tækifærið og hefja spjall við veitingahúseigandann, taka kveðju hans með opnu hjarta og sjá hvert það leiddi. En áður en ég áttaði mig var Massimo horfinn.
Það var ekkert við þessu að gera, hugsaði ég. Við komum okkur fyrir í leiguíbúðinni og þar á eftir ákváðum við að fá okkur kvöldmat á litlum samlokustað, hér handan við hornið, sem er í eigu Massimo Bottura. Á matseðlinum á þessum litla stað er af einhverjum ástæðum mynd af fótboltalandsliðsmanninum Daniele De Rossi, en á bak við hann er löng saga sem ég nenni ekki að tíunda hér. En í allra stysta máli hefur De Rossi verið fyrirliði fótboltaliðs Roma í 15 ár en fyrir nokkrum mánuðum fékk hann ekki endurnýjaðan samning sinn við liðið og það vakti mikla óánægju hjá Roma-aðdáendum. De Rossi er baráttuhundur, harður af sér, mikill persónuleiki, gefst aldrei upp og fórnar sér fyrir Roma-liðið. Ég skyldi ekki hvers vegna mynd af þessum fótboltakappa var prentuð á þennan fallega matseðil og spurði því þjóninn hverju þetta sætti. Það kom í ljós að Massimo, eigandinn, var mikill aðdáandi De Rossi. Hmm, hugaði ég, því ég er líka aðdáandi De Rossi. Hann stendur fyrir hið besta í fótboltanum.
Eftir stutta umhugsun ákvað ég að skrifa bréf til Massimo á servíettu staðarins. Ég sagði honum frá fundi okkar fyrr í dag og hvað ég hefði verið seinn að átta mig á kveðju hans, ég sagði honum frá aðdáun minni á Sameiginlegum vini okkar, De Rossi, ég sagði að ég væri ánægður með að hann hvetti fólk til bjartsýni (það er eitt af mottó staðarins „ottimisimo“) og sagði honum frá því að við hefðum borðað einu sinni hjá honum. Það var árið 2016 og að við hefðum aftur reynt að panta borð hjá honum, en án árangurs. Ég sagði honum að nú gerði ég síðustu tilraun til að reyna að komast aftur að hjá honum þar sem ég sat úti við samlokustaðinn hans á björtu sumarkvöldi í Modena og ég vonaði að hann hefði tækifæri á að svara mér. Nú bíð ég við símann. Kannski finnist honum ástæða til að bregðast við bréfi frá hinum nefstóra Íslendingi.
ps. þegar við hringdum og ætluðum að reyna að fá borð í ágúst hjá Osteria Fransescana (þetta var í apríl) vorum við númer 35.777 í röðinni þegar uppselt varð í ágúst.