Modena. Þá kom að því að við Massimo ræddum saman.

Þegar ég vaknaði í morgun hafði veitngamaðurinn Massimo ekki svarað bréfinu sem ég sendi honum í gærkvöldi. Ég varð líka dálítið skeptískur þegar þjónninn á panini-veitingastaðnum sagðist mundi senda bréfið mitt, sem ég skrifaði á servíettu, á framkvæmdastjóra veitingahússins, Osteria Fransescana, en ekki Massimo sjálfan. Þjónninn hafði víst ekki kontakt-upplýsingarnar.

Ég svaf fremur órólega í nótt. Ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að sofa undir loftkælingu, mér verður svo undarlega kalt án þess að verða kalt. Ég vaknaði því oft og hálfsvaf. Ég vaknaði hálfþreyttur og við vorum ekki lengi að koma okkur á morgunverðarveitingahús sem er hér handan við hornið, Menamoka, sem er ansi góður morgunkaffistaður og flottur. Veggirnir eru allir útteiknaðir með portret-myndum af frægu fólki og þekktum ummælum þeirra. Eiginlega bara frábær staður.; gott kaffi og gott morgunbrauð.

Dagurinn fór svo í rólegt bæjarrölt með Söndrufjölskyldu. Við Davíð ákváðum að ganga heim á leið þegar komið var fram yfir hádegi. Ég ætlaði bara að vesenast aðeins yfir hádaginn í tölvunni minni, svara tölvupóstum og slíkt. En á leiðinni að íbúðinni gerðist það ótrúlega; Massimo veitingamaður kom aftur gangandi á móti okkur, eins og í gær, en nú var ég fyrri til.
„Hi, Massimo,“ segi ég.
„Hi,“ segir Massimo og horfir hissa á mig. Átti hann að þekkja mig? „Hvernig hefurðu það?“ spurði hann svo.
„Fínt,“ sagði ég. „En ég skrifaði þér bréf í gær.“
„Skrifaðirðu mér bréf? Í gær?“
„Já, í gær. Fékkstu það ekki?“
„Nei.“
„OK,“ sagði ég og kynnti mig og erindi bréfsins. Ég sagði honum að ég vildi spyrja hann hvort hann gæti reddað okkur borði á Osteria Fransescana. „Ég trúi líka á ‘ottimisimo’, eins og þú.“
Nú kveikti Massimo á perunni. „Komiði með mér. Bjartsýni, ottimisimo, já, það er málið. Ég og teamið mitt ætlum að elda í kvöld á nýjum stað, þið komið bara með þangað. Við vorum að opna, Francescana @ Maria Luigia heitir staðurinn og er rétt utan við Modena. (Sjá myndir hér). Við borðum bara við langborð öll saman.“
Svo strunsaði hann af stað með okkur feðga í eftirdragi. Eftir stutta göngu opnaði hann skrifstofu þar sem 7 ungmenni sátu yfir tölvu. „Verið svo væn að finna borð fyrir vin minn hérna frá Íslandi. Borð fyrir þrjá! Getiði ekki reddað því?“
Unglingurinn skrifaði hratt á tölvu, hringdi símtal og kinkaði svo kolli til Massimo.
„OK, see you tonight!“ sagði Massimo og svo fór hann.
Við Davíð gegnum frá málinu við unglinginn og gengum svo út. Við höfðum ekki gengið nema tuttugu metra þegar kallað var eftir okkur. Massimo stóð á götuhorni og veifaði til okkar. „Ég sagði það. Bjartsýni. Það er málið. Sjáumst í kvöld.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.