Fiattone. Hægt líf

Ég finn að ég er farinn að hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða mín að loknu fríi. Nú er ég kominn með nýja skrifstofu þannig að það verður enn notalegra að hella sér yfir vinnuna.

Ég fékk mynd frá nýja kontórnum í gær og hér er hún.

Nýja skrifstofan, áður en ég flyt inn.

Ég lifi áfram mínu slow-lífi hér. Vakna snemma, eða um hálfsjö. Sest út á svalir með kaffibolla og horfi niður hlíðarnar (sjá mynd hér að neðan). Á svölunum sit ég í svona korter og næ mér oft í þurra brauðsneið sem ég narta með kaffinu mínu. Þegar fleiri eru vaknaðir fer ég í íþróttaskónna mína (merki: adidas) og geng með þeim sem nenna niður brekkuna og niður á þjóðveg og aftur upp. Þetta eru tæpi sjö kílómetrar sem við göngumá rúmum klukkutíma (fyrir þremur árum hljóp ég þessa leið á 38 mínútum.) Svo er morgunmatur. Sus hefur bakað brauðbollur á morgnana og þær borðum við öll níu sem erum hér í húsinu og morgunmaturinn tekur langan tíma. Venjulega erum við ekki búin að borða fyrr en hálf elleftu. Svona gengur dagurinn í sína hæga takti.

Ég var að byrja á Sapiens, eftir Shlomo Harari, sem er svo fræg. Ég er ekki viss um að þessi bók eigi við mig en ég gef henni sjéns. En ég las líka stutt viðtal við auðmanninn Jim Ratcliff sem hefur notað mikla peninga í jarðarkaup á Íslandi, sérstaklega norðausturlandi. Ef marka má það sem hann segir, og ég hef enga ástæðu til að efast um að hann segi satt, er markmið hans göfugt með jarðarkaupunum. Hann vil byggja upp laxveiðiárnar, endurheimta náttúru sem hefur orðið jarðeyðingu að bráð, endurrækta skóga og vinna að ítarlegum rannsóknum á íslenska laxastofninum. Mér finnst þetta göfugt. En ég skynja ákveðna tortryggni í garð mannsins, fyrst og fremst vegna þess að hann er efnaður og líka vegna þess að hann er útlendingur. Ég sé ekki að nokkur íslenskur einstaklingur (og ekki einu sinni hið íslenska ríki) hafi bolmagn eða hafi áhuga á að hrinda af stað þeim framkvæmdum sem auðmaðurinn boðar. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að allt þetta gagnist landi og þjóð.

Morgunútsýni af svölum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.