Fiattone. Tekjur mafíunnar

Þegar ég gekk fram hjá ruslagámunum hér á torginu í Fiattone furðaði ég mig á því hvað Ítalir umgangast úrgang, rusl, drasl og sorphirðu af lítilli ábyrgð. Eða engri ábyrgð. Það er drasl alls staðar, ruslagámarnir eru yfirfullir svo að sorpið veltur út úr þeim. Þótt sumir ruslagámar séu merktir ákveðnum ruslflokkum; plasti, pappír, pappa … er öllu bara blandað saman. Og svo kemur ruslabíllinn og hann tekur plastgáminn og svelgir í sig innihaldinu og í kjölfarið gleypir hann allt sorpið úr heimilissorpi. Sem sagt öllu er hrært í einn graut.

Ég fór að hugsa um þetta þegar ég sá að Jón Karl hafði skrifað um meðferð plastúrgangs á Íslandi. Hann (þ.e. úrgangurinn, ekki Jón Karl) er víst fluttur til Svíþjóðar í skipum (CO2!!!) og þar er plastið brennt (CO2!!!). Þetta er nú ljóta metnaðarleysið. Ég veit ekki hver stýrir sorphirðu á Íslandi en á Ítalíu er það ein helsta tekjulind mafíunnar. Er ekki einhver sem hefur áhuga á að reisa endurvinnslustöð fyrir plast á Íslandi?

Þetta er kannski verkefni fyrir auðmenn!! – „Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni,“ segir Eiríkur Örn í bloggi sínu og það er alveg rétt. Nú er tími fyrir auðmenn til að bæta ímynd sína með því að berjast fyrir náttúruvernd. Það er leiðin til vinsælda. Endurvinnsla á plasti er leiðin. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.