Nürnberg. Bóksala á hraðbrautum

Ég keyrði frá Fiattone í morgun. Í rauninni var ekki ætlunin önnur en að aka til Bologna, þaðan sem Númi átti að fljúga á morgun og vera þar í nótt. En snemma í morgun uppgötvaði Sus (hún hafði pantað flugmiðann fyrir Núma) að flugið var nú í kvöld, ekki annað kvöld. Þess vegna skildum við Núma eftir í á flugvellinum Bologna í dag og keyrðum sjálf áfram í norðurátt.

902,7 km eru að baki og nú er ég á hóteli í Nürnberg. 850 km eru enn eftir til Espergærde. Á ferð okkar í dag stoppuðum við tvisvar í hraðbrautarsjoppum til að fá okkur kaffi og í öllu því kraðaki sem þar er til sölu (brauð, kaffi, vín, bjór, leikföng, minjagripir, sælgæti …) er alltaf hilla með bókum: oftast metsölubókum. Þetta er óaðlaðandi hrúga af bókum og ég skil ekki að nokkur maður hafi áhuga á að finna sér lesefni í þessum hraðbrautarbúllum.

En þegar ég virti fyrir mér bókaúrvalið varð mér hugsað til Barnes & Nobles búðarinnar í New York. Þegar maður kemur inn í búðina langar manni til að vera hrifinn og þykja til búðarinnar koma, enda er hún stór og þar eru margar bækur, en þegar maður gengur út hefur maður á tilfinningunni að maður hafi verið svikinn. Létt-svikinn, ekki rosalega-svikinn. Búðin er svo sjúskuð, og það er eins og engum þyki í raun vænt um búðina, úrvalið er staðlað og fyrirsjáanlegt, sölufólkið í búðinni er áhugalaust og allt er einhvern veginn óelskað og deyjandi.

Nú hefur Barnes og Noble fengið nýjan mann til að taka við rekstri allra búða í Bandaríkjunum og glæða búðirnar sál. Waterstones keðjan enska keypti Barnes og Noble fyrir nokkru og nú er maðurinn sem reddaði Waterstone frá gjaldþroti á sínum tíma, James Daunt, kominn til New York til að snúa hinni miklu óheillaþróun við. Í Bandaríkjunum eru enn reknar 627 búðir undir merkjum B&N. En 400 búðum hefur verið lokað síðan 1997.

Lykillinn að viðsnúningnum er skv. James, að gera hverja B&N búð sjálfstæðari og bjóða einungis upp á þær bækur sem bókakaupendur hafa áhuga á, en ekki þær bækur sem útgefendur hafa áhuga á að selja. Hver bókabúð á að hafa sinn eigin karakter og vera rekinn af einhverjum sem elskar búðina af heilu hjarta. Nú á að fylla B&N búðirnar af hjarta og sál.

Í dag er markaðshlutdeild B&N í Bandaríkjunum 8% en Amazon hefur 50%. Í Englandi hefur Amazon 40% en Waterstones 25%.

Á Íslandi er því miður engin bókabúð sem maður getur kastað kærleika sínum yfir, sem bókakaupandi, af því að hún er svo yndisleg, með hjarta og sál; staður þar sem bækur eru elskaðar. Þetta gæti verið verkefni fyrir auðmann. Ný leið til að bæta ímynd sína frá illmenni til menningarunnanda. Það er leiðin til vinsælda. Krúttleg bókabúð er leiðin. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.